Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 15. desember 2022 11:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnór Sig: Geta ekki sagt neitt eða gert neitt út af þessu FIFA ákvæði
Arnór Sigurðsson.
Arnór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Norrköping.
Í leik með Norrköping.
Mynd: Guðmundur Svansson
Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson átti virkilega gott tímabil með Norrköping í Svíþjóð.

Arnór kom á láni til félagsins um mitt sumar frá Rússlandi og gildir lánssamningurinn fram á næsta sumar. Þetta er í annað sinn sem Arnór er á mála hjá félaginu því hann var fenginn þangað frá ÍA árið 2017 og svo seldur til CSKA Moskvu árið 2018.

Arnór kom frábærlega inn hjá Norrköping, skoraði sex mörk og lagði upp fjögur í ellefu leikjum.

„Ég er á lánssamningi til 30. júní og mér líður mjög vel þar. Mér gekk persónulega vel. Eins og staðan er núna þá verð ég áfram þar en maður veit aldrei hvað gerist," sagði Arnór í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðustu helgi.

Sögur hafa verið um að Norrköping sé að reyna að kaupa Arnór en hann sjálfur hefur ekkert heyrt um það. Samningur hans við CSKA rennur út næsta sumar og verður hann þá frjáls allra mála.

„Ekki svo ég viti. Í rauninni veit ég ekki neitt með það. Umboðsmennirnir mínir sjá um það."

Hann yfirgaf CSKA Moskvu eftir að Rússland hóf innrás í Úkraínu. Út af stríðinu þá gaf Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, út reglur um það að leikmenn á svæðinu gætu fryst samninga sína og farið annað á meðan staðan væri svona.

„CSKA gat í rauninni ekki gert neitt. Þeir geta ekki sagt neitt eða gert neitt út af þessu FIFA ákvæði. Þetta var að lokum mín ákvörðun," segir Arnór en hann valdi að fara í Norrköping til að finna leikgleðina aftur. Hann hafði ekki spila mikið á síðustu árum.

„Það voru einhverjar þreifingar og ég talaði við einhver félög. Aðalmálið fyrir mig var að fara eitthvert þar sem ég vissi að ég myndi fá að spila, fá leikgleðina aftur. Þetta var komið þangað. Ég vissi hvað ég væri að fara inn í þegar ég ákvað að fara aftur til Norrköping. Ég er mjög ánægður að hafa komið hingað."

Arnór var virkilega góður en liðið spilaði ekki nægilega vel og endaði að lokum í tólfta sæti.

„Ég er sáttur með mitt tímabil en liðið spilar undir pari. Það er það sem skiptir máli. Frammistaðan hjá liðinu verður að vera betri. Þeir fóru inn í tímabilið með miklar væntingar en þeir voru í tíunda eða ellefta sæti þegar ég kem. Það var þungt yfir þessu þar sem það var ekki búið að ganga eins og menn vildu."

„Liðið ætlar að styrkja sig. Ef við ætlum að keppa við stóru liðin þá þurfum við að fá inn öfluga leikmenn," segir Arnór en í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni. Fjórir aðrir Íslendingar eru á mála hjá félaginu; Arnór Ingvi Traustason, Ari Freyr Skúlason, Andri Lucas Guðjohnsen og Jóhannes Kristinn Bjarnason.
Útvarpsþátturinn - HM með smassbræðrum, Arnór og ÓMK
Athugasemdir
banner
banner