mið 16. janúar 2019 18:00
Magnús Már Einarsson
Erik Hamren: Þurfum hjálp ef stuðningsmenn vilja partý á EM
Icelandair
Erik Hamren á æfingu hjá íslenska landsliðinu í Katar.
Erik Hamren á æfingu hjá íslenska landsliðinu í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, hefur verið ánægður með stuðninginn sem hann hefur fengið frá stuðningsmönnum síðan hann tók við liðinu í ágúst. Erik vonast til að stuðningsmenn Íslands hjálpi liðinu að ná sæti á EM 2020 en ný undankeppni hefst í mars.

„Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir. Þeir vilja vinna en mér finnst þeir hafa staðið við bakið á okkur. Þeir hafa sýnt því skilning af hverju úrslitin hafa verið eins og þau hafa verið. Það er gott," sagði Erik þegar Fótbolti.net ræddi við hann í Katar á dögunum.

„Ég finn það sama hjá fjölmiðlum. Það er í góðu lagi að gagnrýna þegar gengur ekki vel og við þurfum á því að halda. Við þurftum á gagnrýni að halda eftir fyrsta leikinn (6-0 tap gegn Sviss). Við höfum verið í mjög erfiðri aðstöðu en stuðningurinn hefur verið mjög góður."

Stuðningsmenn Íslands, með Tólfuna í fararbroddi, vöktu athygli á EM í Frakklandi 2016 sem og á HM í Rússlandi í fyrra.

„Stuðningsmannamenningin á Íslandi er frábær. Þegar ég var staddur í Suður-Afríku þegar HM var í sumar þá sá fólkið þar stuðninginn frá Íslandi og hann hefur vakið athygli um allan heim. Ég vona að stuðningsmennirnir styðji okkur í undankeppni EM því ef þeir vilja partý í lokakeppninni þá þurfa þeir að hjálpa okkur. Þetta verður erfitt."

„Ég heyrði að Lars (Lagerback) sagði í viðtali í Svíþjóð að það væri nánast ómögulegt að fara í þriðju lokakeppnina í röð. Þetta verður erfitt því stærri þjóðir hafa lent í vandræðum með að ná inn á lokamót þrisvar í röð. Við viljum gera það. Þetta verður stór áskorun en ég hef trú á að við getum þetta," sagði Erik að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner