mið 16. janúar 2019 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sveppi hélt utan um höfuðið á Zola og gaf honum selbita
Sveppi.
Sveppi.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Eiður og Mourinho fagna sigri Chelsea.
Eiður og Mourinho fagna sigri Chelsea.
Mynd: Getty Images
Gianfranco Zola er í dag aðstoðarstjóri Chelsea.
Gianfranco Zola er í dag aðstoðarstjóri Chelsea.
Mynd: Getty Images
Skemmtikrafturinn Sverrir Þór Sverrisson, eða Sveppi, er viðmælandi Arnórs Sveins Aðalsteinssonar, leikmanns KR, og Bergsveins Ólafssonar, leikmanns Fjölnis, í nýjasta hlaðvarpsþætti þeirra drengja sem ber heitið Millivegurinn.

Sveppi ræðir þar meðal annars um Gudjohnsen-þættina sem nutu mikilla vinsælda á síðasta ári. Í þáttunum fara Sveppi og æskuvinur hans, Eiður Smári Guðjohnsen, yfir knattspyrnuferil hins síðarnefnda.

Eiður er einn besti fótboltamaður í sögu Íslands, en hann kom víða við á ferlinum og spilaði annars fyrir stóra klúbba á borð við Chelsea og Barcelona.

Í þáttunum tók Sveppi viðtal við sjálfan Jose Mourinho, einn besta knattspyrnustjóra sögunnar. Eiður lék undir stjórn Mourinho hjá Chelsea og kunni vel við það. Eiður og Mourinho náðu mjög vel saman.

Smelltu hér til að sjá það þegar Sveppi ræddi við Mourinho.

Sveppi ræddi við Arnór og Bergsvein um upplifunina að hitta Mourinho og ræða við hann.

„Það var hræðilegt. Ég er hræðilegur í ensku, mér finnst ég ágætur, en dóttur minni finnst ég vera hræðilegur. Eiður er bara eins og innfæddur og hann hristir bara hausinn þegar ég byrja að tala ensku," sagði Sveppi.

„Ég verð svo meðvitaður hvað Eiði finnst ég asnalegur og þess vegna var ég svona stressaður að tala við Mourinho. Ég fann líka á Eiði Smára að hann var sjálfur stressaður. Hann vissi ekkert hvað ég væri að fara að spyrja hann. Ég ætlaði bara að leyfa því að koma."

„Ég fann það á Eið að hann vildi ekki að þetta yrði kjánalegt, hann er svo hræddur við það þegar hann er með mér. Svo er það nærvera Mourinho, hún er mikil. Ég á mynd með mér að heilsa Mourinho og hann horfir ekki einu sinni í augun á mér. Svo var það gaman. Hann var alveg léttur."

Gaf Zola selbita
Í London hittu Sveppi og Eiður marga af fyrrum liðsfélögum hans í Chelsea, eins og Frank Lampard, Jimmy Floyd Hasselbaink og Gianfranco Zola.

„Það eru geggjaðir gæar, Zola er alveg geggjaður," sagði Sveppi.

„Við fórum heim til Zola og vorum í heilan dag heima hjá honum að horfa á fótbolta, síðan fórum við út í körfubolta og fórum í asna. Ef að þú tapaðir í asnanum þá máttirðu taka utan um höfuðið á þeim aðila og gefa honum selbita í eyrað eins fast og hægt var. Þegar ég hélt utan um höfuðið á Gianfranco Zola og negldi í eyrað á honum, ég gleymi því aldrei."

Zola er í dag aðstoðarstjóri Maurizio Sarri hjá Chelsea.

„Það var gaman að sjá hvað Eiður er risastór í þessum bransa, maður gerir sér ekki grein fyrir því."

Þáttinn með Sveppa má sjá hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner