Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   lau 16. febrúar 2019 10:00
Fótbolti.net
Hemmi ræddi muninn á Wes Brown og Berbatov í Indlandi
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann Hreiðarsson er kominn aftur til Íslands eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Kerala Blasters í ofurdeildinni í Indlandi á síðasta ári. Þar starfaði Hermann með David James.

„Markmiðið hjá þessum með þessari deild er að auka áhugann og auka breiddina og getuna hjá indverska landsliðinu," sagði Hermann í Miðjunni á Fótbolta.net í vikunni en þar fór hann vel yfir tíma sinn í Indlandi.

Dimitar Berbatov og Wes Brown, fyrrum leikmenn Manchester United, voru á meðal leikmanna Kerala Blasters í fyrra en þeir gáfu mismikið af sér.

„Wes Brown var stórkostlegur og var þarna á réttum forsendum. Hann gaf mikið af sér og miðlaði reynslu sinni á faglegan og góðan hátt. Hann var góður í klefanum og leiðtogi á vellinum. Hann spilaði hverja mínútu þó hann væri í smá veseni með skrokkinn," sagði Hemmi.

„Berbatov var kannski ekki alveg á sömu forsendum. Það vantaði aðeins upp á formið hjá honum til að byrja með. Þá er betra að vera einhversstaðar annarsstaðar en úti á fótboltavelli. Hann var kannski ekki sammála því. Menn eiga ekki að vera í fótbolta ef þeir geta ekki hlaupið."

Reyndi að fá Eið Aron
Hermann fékk Guðjón Baldvinsson framherja Stjörnunnar til Kerala Blasters á láni og spilaði nokkrar vikur með liðinu í byrjun síðasta árs.

„Þetta var eitthvað sem við þurftum. Við vorum með tvo erlenda sentera sem hreyfðu sig eiginlega ekkert. Indversku framherjarnir voru farnir að gera það sama. Þetta var svarið við því. Það var enginn betri en Guðjón Baldvinsson í að sýna framherjum að þú getir verið besti varnarmaður liðsins og unnið mest þó að þú sért framherji," sagði Hermann sem reyndi einnig við annan íslenskan leikmann til Kerala Blasters í fyrra.

„Ég heyrði í Eiði Aroni (Sigurbjörnssyni, leikmanni Vals). Við reyndum það en það gekk ekki. Ég hef þjálfað Eið áður og hann er svakalega hæfileikaríkur. Hann er besti hafsentinn á landinu og hann er frábær bæði sem varnarmaður og fótboltamaður. Hann hefði pottþétt nýst okkur gríðarlega vel."

Hermann hætti störfum í desember en skömmu síðar var David James rekinn frá Kerala Blasters. Hermann og James voru liðsfélagar hjá Portsmouth og störfuðu síðan saman hjá ÍBV árið 2013. Hermann ætlar áfram í þjálfun í framtíðinni og útilokar ekki að vinna meira með James.

„Við getum unnið saman. Þó að við séum ekki alltaf sammála öllu þá tölum við mikið saman um fótbolta. Við höfum farið hingað og þangað til að fá meiri reynslu í bankann hjá okkur og það er aldrei að vita," sagði Hermann.

Hlustaðu á Hemma í Miðjunni hér eða í Podcast forritum
Athugasemdir
banner
banner
banner