lau 16. mars 2019 23:29
Ívan Guðjón Baldursson
Heurelho Gomes fékk kall frá Guði - Ætlar að gerast prestur
Mynd: Getty Images
Heurelho Gomes er búinn að tilkynna að hann ætli sér að leggja hanskana á hilluna eftir tímabilið en hann er 38 ára varamarkvörður Watford.

Gomes segist finna á sér að hann geti spilað í nokkur ár til viðbótar og hafði hann hugsað sér um að ljúka ferlinum í Brasilíu eða Hollandi. Hann hætti við það á dögunum eftir að hafa fengið kall frá Guði og hefur ákveðið að gerast frekar prestur í heimalandi sínu, Brasilíu. Auk þess ætlar Gomes að vera umboðsmaður í knattspyrnuheiminum.

„Ég er tilbúinn í þetta. Ég fékk kall frá Guði um að ég skyldi verða prestur. Kannski verð ég prestur," sagði Gomes.

„Ég ætla að klára tímabilið og hugsa um þetta, ég þarf að tala við fjölskylduna um þetta. Lífið mitt mun halda áfram utan fótboltans en innan hans líka þar sem ég hef einnig áform um að gerast umboðsmaður."

Gomes hefur ekki alltaf verið heittrúaður en undanfarin ár hefur hann fundið fyrir aukinni nærveru Guðs og vill nú deila boðskapi hans með heiminum.

„Síðustu tvö ár hefur Guð talað við mig, hann vill að ég þjóni sér á ákveðinn máta og ég gæti gert það. Þetta er mjög sterk tilfinning innra með mér sem ég get ekki hunsað."
Athugasemdir
banner
banner