Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 16. mars 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Eigandi Hoffenheim reynir að lækna kórónaveiruna
Mynd: Getty Images
Dietmar Hopp, eigandi Hoffenheim í Þýskalandi, er ekki vel liðinn meðal stuðningsmanna annarra félaga.

Hann er einn af fáum meirihlutaeigendum knattspyrnufélaga í efstu deild í Þýskalandi og er illa séður fyrir að hafa 'keypt' Hoffenheim upp í efstu deild.

Hopp er viðskiptajöfur og er talað um hann sem afar færan og samviskusaman viðskiptamann.

Fyrirtæki í hans eigu, CureVac, er meðal margra sem vinnur hörðum höndum að lausn við kórónaveirunni.

CureVac virðist vera komið lengra en samkeppnisaðilar í þróun mótefnis og hefur verið í fréttunum undanfarna daga og vikur vegna meints áhuga Donald Trump á fyrirtækinu.

Trump var sagður vilja komast yfir mótefnið til að einoka það og hafði hann mikil samskipti við fyrrum framkvæmdastjóra CureVac, hinn bandaríska Daniel Menichella.

Veður af þessu barst langar leiðir og var Menichella skipt úr stöðu framkvæmdastjóra í síðustu viku. Ingmar Hoerr, stofnandi CureVac, tók stöðuna.

„Vonandi tekst okkur að finna lausn við kórónaveirunni sem fyrst. Ef það tekst þá mun mótefnið ekki vera skorðað við afmarkað landsvæði heldur fáanlegt um allan heim," svaraði Hopp þegar hann var spurður út í meint áform Trump.
Athugasemdir
banner
banner
banner