þri 16. mars 2021 23:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Héldu góðu tilfinningunni úr fyrri leiknum - „Gaman að fá að hitta Karólínu"
Rosengård mætir Bayern í næstu viku
Rosengård mætir Bayern í næstu viku
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karólína Lea mætir Glódísi eftir rúma viku.
Karólína Lea mætir Glódísi eftir rúma viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mateja Zver í leik með Þór/KA fyrir um áratugi síðan
Mateja Zver í leik með Þór/KA fyrir um áratugi síðan
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Úr landsleik síðasta haust
Úr landsleik síðasta haust
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er gaman að fá að hitta Karólínu. Hún er frábær stelpa og vonandi næ ég að spjalla aðeins við hana."

Rosengård mætir Bayern Munchen, sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leikur með, í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Fyrri leikurinn fer fram í Munchen eftir rúma viku.

Með Rosengård leikur landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir. Sænska félagið sló út St. Pölten í 16-liða úrslitum. Hjá St. Polten eru þær Kristrún Rut Antonsdóttir og Mateja Zver á mála. Mateja er fyrrum leikmaður Þór/KA. Fótbolti.net heyrði í Glódísi í kvöld og fór yfir leikina og framhaldið með henni.

Hvernig voru þessir leikir gegn austurrísku meisturunum?

„Heimaleikurinn var smá vonbrigði af okkar hálfu, 2-2 jafntefli en við komum til baka úr 0-2 stöðu og náum að snúa leiknum, fengum færi og áttum að klára leikinn í seinni hálfleiknum en komum okkur í fína stöðu með því að jafna," sagði Glódís.

„Í útileiknum komumst við í 2-0 í fyrri hálfleik og erum miklu betri en þær í þeim hálfleik. Í seinni hálfleik eru þær svo mikið með boltann en ná ekki að skapa sér mikið af marktækifærum. Við náðum að sigla þessu í hús."

Hvernig var ferðalagið?

„Þetta var alls ekki flókið fyrir okkur, fórum með leiguflugvél frá Malmö, flugið var einn og hálfur tími og vorum á góðu hóteli. Ekkert vesen.“

Kom styrkleiki St. Pölten ykkur á óvart í fyrri leiknum?

„Nei, í rauninni ekki. Mörkin eru mistök af okkar hálfu í rauninni. Samt sem áður er talað um þær eins og þær séu ekki gott lið, það er algjör misskilningur. Þær eru að mínu mati mjög gott lið og geta strítt góðum liðum í Meistaradeildinni. Þær voru góðar í því sem þær gera, fyrir leikina á móti okkur held ég að þær hafi ekki verið búnar að fá á sig mark í keppninni sem verður að teljast mjög sterkt.“

„Við Íslendingar þekkjum Mateju Zver vel, hún var frábær leikmaður þegar hún spilaði á Íslandi. Hún spilar með St. Pölten og skoraði bæði mörkin. Fyrirfram töldum við að við ættum að vinna þetta einvígi og settum þá pressu á okkur að komast áfram."

„Í seinni leiknum sýndum við að við erum betra liðið en á sama tíma sýndu þær að þær eru mjög góðar í skyndisóknum. Svo í seinni hálfleik í seinni leiknum sýndu þær aðra hlið á sér þar sem þær pressuðu okkur hátt og sögðu svo eftir leikinn að það væri það sem þær stæðu fyrir. Það kom mér á óvart að þær hefðu ekki gert það meira því þær voru mjög góðar í því.“


Mateja Zver, þú spilaðir eitthvað á móti henni á Íslandi er það ekki?

„Ég man betur eftir því að hafa mætt henni með landsliðinu. En ég man eftir umtalinu í kringum hana. Hún er lunkinn leikmaður, tæknilega mjög góð og klár leikmaður.“

Hvað vissuð þið um St. Polten fyrir einvígið, var eitthvað í þeirra leik sem þið vilduð stöðva frekar en annað?

„Við reyndum að setja einbeitinguna meira á okkur heldur en þær fyrir fyrri leikinn því flestar úr liðinu okkar voru að koma úr landsliðsverkefni. Við vorum búnar að vera fjórar í Malmö að æfa, hinar voru með landsliðinu. Við náðum fjórum æfingum saman og einbeitingin var mestmegnis á okkur. Við vissum af hápressunni þeirra sem við höfðum séð þær setja upp gegn slakari andstæðingum, við vissum því ekki hvort þær myndu nýta sér hana á móti okkur eða ekki. Það var ekkert í þeirra leik sem kom okkur á óvart.“

Hvernig var hugarfarið þegar farið var inn í seinni leikinn?

„Við náðum einhvern veginn að halda tilfinningunni sem við fengum eftir fyrri leikinn, við vorum með geggjaða tilfinningu eftir þann leik þrátt fyrir jafntefli, af því við komum til baka og hefðum átt að klára með sigri. Við fórum ekki inn í seinni leikinn með neitt stress og vissum að ef við myndum ná að skora þá þyrftu þær að bregðast við.“

Hvernig líst þér á að mæta Bayern Munchen?

„Mér líst bara vel á það. Það hefði ekki skipt neinu máli hvaða liði við hefðum mætt í þessari umferð, þetta eru allt topplið í Evrópu. Við vildum komast á þetta stig til að máta okkur gegn bestu liðunum og þetta er eitt af bestu liðum Evrópu. Það verður gaman að máta sig gegn Bayern, þær eru frábært lið, ekki tapað stigi í deildinni.“

Karólína Lea spilar með Bayern, er eitthvað öðruvísi að mæta Íslendingi í leikjum?

„Nei, mér finnst það ekkert öðruvísi og skipta máli þannig séð. Það er gaman að fá að hitta Karólínu. Hún er frábær stelpa og vonandi næ ég að spjalla aðeins við hana. Inn á vellinum skiptir engu máli fyrir mig hvort það sé Íslendingur að spila eða ekki.“

Skiptir það máli að þið eigið útileikinn fyrst?

„Já, því útivallarmörkin gilda ef einvígið endar á jöfnu og það er yfirleitt talið betra að byrja úti. Þetta verða hörkuleikir fyrir okkur. Við erum eina liðið í 8-liða úrslitum sem er ekki með fjárhagslegan stuðning frá karlaliði sem er magnaður árangur af okkar hálfu finnst mér og sýnir hversu mikill uppgangur er í kvennaboltanum þegar öll þessi lið eru komin með fjárhagslegan stuðning frá karlalið og eru að stinga öll hin liðin af í Evrópu."

Ef þú horfir á þessa viðureign, eru jafnmiklar líkur á að bæði þessi lið fari áfram?

„Ef við værum að fara spila heila deild, marga leiki, þá væri þetta ekki 50:50. En af því að þetta eru tveir leikir þá ætla ég að segja að það getur allt gerst. Þær eru klárlega betra lið og eru klárlega líklegra liðið fyrirfram en það getur allt gerst í fótbolta. Þetta verður í fyrsta skipti í langan tíma þar sem við erum að spila á móti liði þar sem við erum kannski ekki betra liðið, ekki að fara vera með boltann allan leikinn, það verður áskorun fyrir okkur og ég held að við höfum ekki lent í því síðan ég kom í Rosengård,“ sagði Glódís. Nánar var rætt við Glódísi og birtist það í fyrramálið hér á síðunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner