mið 16. maí 2018 13:00
Magnús Már Einarsson
Tom Heaton: Eins hjá Íslandi og Burnley
31 dagur í fyrsta leik Íslands á HM
Icelandair
Tom Heaton markvörður Burnley.
Tom Heaton markvörður Burnley.
Mynd: Getty Images
Tom Heaton, markvörður Burnley, hefur hrifist mikið af íslenska landsliðinu undanfarin ár. Hann var í leikmannahópi enska landsliðsins í leiknum fræga í Hreiðrinu í Nice fyrir tveimur árum.

„Þú getur ekki annað en dáðst að því hvað Ísland hefur gert. Að svona lítil þjóð hafi náð að búa til fótboltalið í þessum gæðaflokki og náð þessum árangri er eitthvað sem má hrósa fyrir," sagði Heaton í viðtali við Fótbolta.net á æfingasvæði Burnley á dögunum.

„Það er mikið afrek að komast á HM. Ég er viss um að Ísland ætlar að fara eins og langt hægt er eftir árangurinn á EM."

„Það sem ég kann sérstaklega vel við er að sjá samheldnina. Stuðningsmennirnir ferðast til að styða liðið. Leikmenn og starfsfólkið er að róa í sömu átt. Þetta er eins og hér hjá Burnley. Það eru allir eitt hjá félaginu, stuðningsmenn, starfsfólk og leikmennirnir. Ég finn þetta hjá íslenska landsliðinu og ég kann að meta það."

Ísland vann England 2-1 í 16-liða úrslitunum á EM og Heaton segir að stemningin hafi ekki verið góð í búningsklefa Englendinga eftir leikinn.

„Þetta var erfitt. Það bjuggust flestir við því að við færum áfram, með fullri virðingu fyrir Íslandi. Frammistaða Íslands var frábær í þessum leik en við náðum okkur ekki á strik. Við tókumst ekki vel á við atvik í leiknum. Þetta getur gerst í hvaða gæðaflokki sem er í fótbolta. Það var svekkandi að þetta gerðist í útsláttarkeppni á stórmóti. Það var erfitt að taka þessu." sagði Heaton sem hefur þó reynt að nýta reynsluna á EM á jákvæðan hátt.

„Fyrir mig persónulega var þetta skemmtileg reynsla, að vera hluti af hópnum. Besta reynslan kemur oft úr því neikvæða og ég hef reynt að læra af þessu."

Heaton hikaði ekki þegar hann var spurður að því hvort hann vilji mæta Englendingum á nýjan leik. „Já, ég myndi vilja það og kvitta fyrir hinn leikinn. Það væri gaman að ná sigri á Íslandi því ég heyri oft talað um þennan leik," sagði Heaton léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner