mið 16. maí 2018 12:30
Magnús Már Einarsson
Tryggvi G: Heppnaðist ekki jafn vel og Guðjón ætlaði sér
Guðjón Pétur Lýðsson.
Guðjón Pétur Lýðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, telur að Guðjón Pétur Lýðsson geti barist af krafti um að komast aftur í byrjunarliðið hjá Val eftir viðburðaríka daga í þessari viku.

Guðjón óskaði í fyrradag eftir að fá að fara frá Val en í gær þar sem hann var ósáttur við spiltíma sinn á tímabilinu til þessa. Í gærkvöldi sendi félagið frá sér yfirlýsingu þar sem var tilkynnt að Guðjón fari ekki fet.

„Ég vona að allir séu sáttir og hann fái sinn séns til að komast inn í liðið. Maður veit ekki hvað hefur farið á milli hans, Óla, Bjössa og stjórnar en maður vonar að hann sé ekki búinn að mála sig út í horn því að þetta er góður leikmaður. Mig grunar að það sé ekki þannig, Óli er léttur á því og ég held að það sé núllstilling í gangi núna," sagði Tryggvi í dag.

Valur samþykkti tilboð frá bæði KA og ÍBV í Guðjón en hafnaði hins vegar tilboði frá KR.

„Auðvitað er maður bara að spekúlera af því að maður veit ekki hvað gerist á bakvið tjöldin. Það er eitthvað sem segir mér að Valsmenn hafi ekki viljað hleypa honum í KR. Mig grunar að tilboðið hjá KR hafi ekki verið lægra en hjá hinum liðunum."

„Þá stendur eftir fyrir Guðjón að fara norður eða til Eyja sem hentar kannski ekki svakalega vel fyrir mann sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Þetta heppnaðist ekki alveg jafn vel og hann ætlaði sér."

„Ég skil vel Guðjón Pétur Lýðsson. Þetta er maður sem var í liði ársins í fyrra og við vitum hvað hann getur. Hann vill auðvitað fá sínar 90 mínútur í hverri umferð og maður skilur það. Þetta endar hins vegar hálf kjánalega og hann verður áfram í Val."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner