Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 16. maí 2023 20:24
Ívan Guðjón Baldursson
Walker byrjaði að efast um sjálfan sig í vetur
Mynd: Getty Images

Enski bakvörðurinn Kyle Walker hefur verið stórkostlegur í undanförnum leikjum með Manchester City. Hann verður væntanlega í byrjunarliðinu þegar Man City tekur á móti Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld.


Walker missti þó byrjunarliðssætið sitt í vetur og var gagnrýndur af Pep Guardiola, knattspyrnustjóra félagsins. Walker segir að gagnrýnin hafi verið særandi en hann hafi komið sterkari til baka fyrir vikið og unnið sér aftur inn sæti í byrjunarliðinu.

Walker missti sætið í byrjunarliðinu í lok febrúar og sagði Guardiola við fjölmiðla að leikmaðurinn virtist ekki geta spilað í nýju leikkerfi City, þar sem hægri bakvörðurinn fer mikið inn á miðjuna. Táningurinn Rico Lewis fékk tækifæri í fjarveru Walker og þá var John Stones einnig notaður sem hægri bakvörður.

Walker var geymdur á bekknum í nokkra deildarleiki í röð og einnig í Meistaradeildarleikjum gegn RB Leipzig og FC Bayern.

„Ég get ekki logið, þetta var mjög sárt. Ég byrjaði að efast um sjálfan mig. Ég var mjög svekktur en ég passaði mig að láta það ekki sjást á æfingum. Það sem Pep hefur gert fyrir mig og þetta félag síðustu sex ár er magnað og ég ber mikla virðingu fyrir honum. Hann er yfirmaðurinn minn og ég er einn af fyrirliðunum," sagði Walker.

Walker komst ekki aftur inn í liðið fyrr en Nathan Aké meiddist og Pep þurfti að breyta skipulaginu á varnarlínunni. Walker hefur spilað frábærlega síðan þá.

„Ég þurfti að vinna aftur í undirstöðuatriðunum. Ég var staðráðinn í að sanna fyrir honum að hann hafði rangt fyrir sér. Það tókst og ég er kominn með sæti í byrjunarliðinu."


Athugasemdir
banner
banner
banner