þri 16. maí 2023 16:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Zaha búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Palace?
Mynd: Getty Images
Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, missir líklega af lokaleikjunum tveimur í úrvalsdeildinni vegna meiðsla. Hann fór meiddur af velli þegar Palace mætti Bournemouth um helgina, fann fyrir eymslum í læri í upphafi seinni hálfleiks.

Daily Mail fjallar um að Zaha hafi farið í myndatöku í gær og að niðurstaðan úr henni gæfi til kynna að meiðslin myndu halda Zaha frá út tímabilið.


Palace mætir Fulham á útivelli næsta laugardag og svo Nottingham Forest á heimavelli á lokadegi tímabilsins.

Zaha endar því tímabilið með sjö mörk og þrjár stoðsendingar í 28 leikjum í öllum keppnum. Hann gæti verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Palace því samningur hans rennur út í næsta mánuði.

Palace vill halda honum og hefur boðið honum nýjan samning og fengi hann 200 þúsund pund í vikulaun. Zaha á eftir að taka ákvörðun með sína framtíð, ætlar aðeins að meta stöðuna áður en hann gefur Palace svar.

Arsenal, Chelsea, Marseille hafa verið orðuð við Zaha sem og félög í Mið-Austurlöndum. Alls hefur hann skorað 90 mörk og lagt upp 76 mörk í 458 leikjum í treyju Palace.
Enski boltinn - Blessun í dulargervi
Athugasemdir
banner
banner
banner