lau 16. júní 2018 16:25
Magnús Már Einarsson
Heimir: Ég vil hrósa strákunum mikið
Icelandair
Aron Einar faðmar mömmu sína eftir leik.
Aron Einar faðmar mömmu sína eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var sögulegur leikur fyrir þetta lið. Þetta var fyrsti leikur okkar á HM," sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, þegar hann tók til máls á byrjun fréttamannafundar eftir 1-1 jafnteflið gegn Argentínu í dag.

„Það var ekki auðveldasti leikurinn að fá Argentínu í fyrsta leik en við fengum stig og tökum það með í pokanum í næsta leik. Þetta var leikur sem við vissum hvernig yrði spilaður. Við vissum að þeir yrðu 60-70% með boltann."

„Við spiluðum varnarleikinn frábærlega. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir vinnusemi og skipulag. Það erfitt að spila gegn heimsklassa liði eins og Argentínu í 90 mínútur. Ég vil hrósa strákunum mikið. Ég vil líka hrósa þjálfaraliðinu. Það var ekkert í leik þeirra sem kom okkur á óvart og við náðum að stoppa mikið í uppspilin."


Argentínska landsliðið hefur oft stillt upp reynslumeira liði en í dag.

„Við vissum að sumir leikmanna þeirra hafa ekki spilað mikið. Það voru margir í argentínska liðinu sem eru ekki með marga landsleiki að baki. Þetta er frekar óreynt argentínskt lið. Við vildum nota svæðin bakvið þá en það er erfitt þegar þú ert ekki með boltann," sagði Heimir og hló.

Heimir var spurður meira út í argentínska liðið og hann hrósaði því mikið. „Þeir sem horfa á fótbolta vita að Argentína er til alls líklegt í þessu móti."

Bandarískur blaðamaður spurði hvort íslensku leikmönnunum finnist gaman að spila leiki eins og í dag þó að liðið sé lítið með boltann.

„Já," sagði Heimir og brosti, „Við höfum trú á okkar hæfileikum. Við vitum hvernig við getum unnið fótboltaleiki. Argentína er með betri leikmenn sem spila með betri liðum og í betri deildum. Ef við förum 1 á 1 út um allan völl þá þarf ekki að spyrja hver vinnur. Ef við viljum fá stig gegn liði eins og Argentína þá þurfum við að spila á okkar hátt. Við viljum vera skipulagðir. Allir eru sammála leikplaninu fyrir svona leik. Það er skemmtilegra að spila svona og afreka eitthvað heldur en að spila öðruvísi og afreka ekkert."

Argentinumenn ætluðu að reyna að keyra upp vængina hjá íslenska liðinu.

„Við vissum að þeir væru að reyna að komast 1 á móti 1 með góðum skiptingum. Javier Mascherano er góður að skipta frá hægri til vinsri. Við vorum viðbúnir þessu og vorum mættir í leikmenn sem fengu boltann. Við gáfum þeim ekki flugbraut til að fara 1 á 1 og vörðumst sem eitt lið. Þannig erum við bestir," sagði Heimir.
Athugasemdir
banner
banner
banner