mán 16. júlí 2018 16:30
Ívan Guðjón Baldursson
Dejan Lovren: Ég missti haus
Mynd: Getty Images
Dejan Lovren var lykilmaður í liði Króata á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Króatía komst alla leið í úrslit en tapaði þar fyrir Frakklandi með fjórum mörkum gegn tveimur.

Frakkar voru 2-1 yfir í hálfleik og byrjuðu Króatar síðari hálfleikinn vel að mati Lovren. Á 52. mínútu þurfti þó að stöðva leikinn þegar fjórir áhorfendur hlupu inn á völlinn í mótmælaskyni við stefnu Vladimir Putin og yfirvalda í Rússlandi.

Einn hljóp að Lovren og reyndi að gefa honum fimmu. Varnarmaðurinn tók ekki vel í það og missti haus að eigin sögn. Hann skellti manninum í jörðina og öskraði á hann.

„Ég var virkilega reiður því við vorum að spila vel á þessum kafla. Ég missti haus, ég tók í hann og vildi helst henda honum út af leikvanginum," sagði Lovren.

Ekki leið á löngu þar til áhorfendurnir fjórir, sem voru klæddir eins og öryggisverðir, voru handsamaðir og hægt var að halda áfram með leikinn.

Skömmu síðar bættu Frakkar þriðja marki sínu við og kom það fjórða í kjölfarið. Mario Mandzukic hélt þó draumnum lifandi þegar hann nýtti sér skelfileg mistök Hugo Lloris í marki Frakka og minnkaði muninn í 4-2.

Nær komust Króatar ekki en leikmenn liðsins geta ekki verið of svekktir, enda náðu þeir besta árangri í sögu þjóðarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner