mán 16. júlí 2018 15:00
Ívan Guðjón Baldursson
Perisic vill sjá Inter styrkja sig í sumar
Mynd: Getty Images
Ivan Perisic var í lykilhlutverki er Króatía náði silfrinu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Perisic er 29 ára kantmaður Inter sem hefur verið eftirsóttur af Manchester United undanfarin ár.

Perisic gæti verið á förum frá ítalska félaginu verði leikmannahópurinn ekki styrktur fyrir næsta tímabil.

„Ég hef bara verið að hugsa um Króatíu til þessa. Núna fer ég í frí frá fótbolta og svo byrjar næsta tímabil," sagði Perisic áðan, degi eftir tap í úrslitaleik HM.

„Ég ætla að gera góða hluti á næsta tímabili, mér líður vel og ég er fullur sjálfstrausts eftir silfur á HM. Mér þykir ljóst að til þess að vinna eitthvað með Inter þurfum við að bæta við okkur leikmönnum. Mörgum leikmönnum.

„Leikmenn verða að vera tilbúnir til að berjast til síðasta svitadropa í hverjum leik. Svo vantar okkur breidd í hópinn, sérstaklega útaf Meistaradeildinni."


Inter rétt náði að tryggja sér fjórða sæti deildarinnar eftir dramatískan sigur í síðustu umferð tímabilsins á útivelli gegn Lazio, sem endaði með 3-2 sigri.

Inter er þegar búið að klófesta Radja Nainggolan, Lautaro Martinez, Stefan de Vrij, Kwadwo Asamoah, Matteo Politano og Federico Dimarco í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner