fim 16. ágúst 2018 11:00
Elvar Geir Magnússon
Barcelona spáð sigri í La Liga
Lionel Messi.
Lionel Messi.
Mynd: Getty Images
Veðbankar telja líklegast að Barcelona verji Spánarmeistaratitil sinn á komandi tímabili og Lionel Messi verði markakóngur deildarinnar.

Það er áhugavert tímabil framundan þar sem Real Madrid hefur verið að ganga í gegnum miklar breytingar og goðsagnirnar Zinedine Zidane og Cristiano Ronaldo eru báðir horfnir á braut.

Fyrstu leikir 1. umferðar verða á morgun en þetta eru verkefni þriggja stærstu liðanna í umferðinni:

Laugardagur: Barcelona - Alaves
Sunnudagur: Real Madrid - Getafe
Mánudagur: Valencia - Atletico Madrid

Julen Lopetegui er tekinn við Real en hann var rekinn sem landsliðsþjálfari Spánar tveimur dögum fyrir HM. Ástæðan var sú að hann var í viðræðum við Real án vitneskju spænska knattspyrnusambandsins.

Spænski glugginn er enn opinn og ekki ólíklegt að Real Madrid muni bæta við sig mannskap en eins og staðan er núna virðist Lopetegui ætla að treysta á Karim Benzema sem fremsta mann i 4-3-3 leikkerfi sínu.

Það er mikil pressa á Lopetegui og fékk hann að heyra það frá spænskum fjölmiðlum eftir 2-4 tap gegn Atletico Madrid í framlengdum leik um Ofurbikar Evrópu.

Atletico hefur gert áhugaverða hluti á leikmannamarkaðnum og haldið eftirsóttum lykilmönnum eins og Antoine Griezmann, Diego Godin og Jan Oblak markverði. Þá hefur félagið fengið hinn 22 ára Rodri frá Villarreal auk þess sem Thomas Lemar og Gelson Martins.

Barcelona hefur breikkað hóp sinn fyrir komandi tímabil, þar sem krafan verður sett á betra gengi í Meistaradeild Evrópu. Malcom, Arthur og Arturo Vidal gera það að verkum að Ernesto Valverde mun geta dreift álaginu mun meira.

Ef við horfum frá titilbaráttunni þá mælum við með því að fólk fylgist með Real Betis. Það er nóg af mörkum í leik liðsins og það hefur styrkt sig í sumar með hinum kraftmikla William Carvalho og hinum leikna japanska vængmanni Takashi Inui.

Vonandi er opið og skemmtilegt tímabil framundan á Spáni.
Athugasemdir
banner
banner