fim 16. ágúst 2018 11:30
Magnús Már Einarsson
Milner: Kominn tími á titil
Mynd: Getty Images
James Milner, leikmaður Liverpool, segir að tími sé kominn á að liðið vinni sinn fyrsta titil undir stjórn Jurgen Klopp. Eftir að hafa farið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili þá styrkti Liverpool hópinn vel í sumar.

„Væntingarnar ættu að vera miklar. Við erum Liverpool. Þetta er risa félag þar sem væntingarnar eru alltaf miklar því að það er saga fyrir því að vinna hér," sagði hinn 32 ára gamli Milner.

„Það er búist við því að við vinnum hvern einasta leik, sama á móti hverjum við spilum. Það veltur á okkur að geta tekið þeirri ábyrgð og notið pressunar."

„Ég hef verið hér í þrjú ár núna og á þeim tíma höfum við farið í þrjá úrslitaleiki og komist svo nálægt því að vinna titil. Þú sérð bætinguna hjá liðinu síðan stjórinn kom hingað. Við getum unnið alla."

„Liðið hefur breyst og við erum alltaf að bæta okkur en núna er kominn tími á að komast yfir línuna og vinna titil. Við setjum pressu á sjálfa okkur með því en það er búist við því hjá þessu fótboltafélagi."

„Þetta er eitthvað sem við erum meira en tilbúnir að gera en það er alltaf erfiðast að ná í fyrsta titilinn. Ef við getum náð fyrsta titlinum þá náum við vonandi að leggja upp betri hluti fyrir framtiðína."

Athugasemdir
banner
banner