„Engin dramatík, þær bara jöfnuðu leikinn. Þær höfðu pressað á okkur síðustu mínúturnar og við réðum ekkert við þær. Við buðum upp á þetta og alltof lítið eftir til að fá á okkur mark, áttum að standa á réttum stöðum og sparka boltanum í burtu," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir jafntefli gegn Þór/KA í dag.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 1 Þór/KA
„Þær setja Örnu Sif [Ásgrímsdóttur] upp í framlínuna og ég vildi fá miðjumennina nær mínum miðvörðum. Menn verða að kveikja fyrr og skilja hvað maður er að tala um," sagði Kristján aðspurður um innáköll sín undir lok leiks.
Kristján segir þá að það hefði verið fínt að geta skipt oftar en vegna tveggja meiðsla í fyrri hálfleik gat hann einungis nýtt einn skiptiglugga í seinni hálfleik.
„Það er mjög mikilvægt að fá eitt stig, við vitum að ágústmánuður er mikilvægur fyrir okkur, erum að spila við liðin í kringum okkur. Mér sýnist það [að 1-1 sé sanngjörn niðurstaða] við vorum svolítið út og suður í fyrri hálfleik og gekk illa að spila út úr pressu Þór/KA. Staðsetningar voru ekki réttar og hræringar vegna meiðslanna, við spiluðum betur í seinni hálfleik," sagði Kristján.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.
Athugasemdir