Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 16. október 2018 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Orri Sigurður bíður bara eftir því að komast frá Sarpsborg
Orri vill losna frá Sarpsborg.
Orri vill losna frá Sarpsborg.
Mynd: Sarpsborg
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Orri Sigurður Ómarsson sem spilaði stórt hlutverk þegar Valur varð Íslandsmeistari 2017 er í erfiðri stöðu hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Sarpsborg.

Orri fær engin tækifæri með aðalliði Sarpsborg, hann spilar bara með varaliðinu.

„Ég fæ bara engin tækifæri og spila með varaliðinu eins og staðan er núna. Stefnan hjá mér er að reyna losna í janúar. Hvert ég fer, hef ég ekki hugmynd um," segir Orri í samtali við Fótbolta.net.

Orri fór út til Sarpsborg eftir að hann hafði hjálpað Val að verða Íslandmeistari sumarið 2017. Hann var ekki í byrjunarliðsáformum Sarpsborg og var því lánaður til HamKam sem er í norsku B-deildinni. Þar var Orri byrjunarliðsmaður en hann fór til baka til Sarpsborg í júlí þar sem HamKam er í miklum fjárhagsvandræðum.

„HamKam hafði ekki efni á því að hafa mig á láni lengur. Félagið er í miklum fjárhagsvandræðum og sendi alla til baka sem voru á láni hjá þeim fyrri hluta sumars. Þeir höfðu ekki kost á öðru en að senda mig til baka."

Orri segist ætla að gera allt til þess að komast í burtu frá Sarpsborg í janúar. Sarpsborg er í tíunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar en liðið er líka í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

„Það er hugarfarið mitt akkúrat núna (að þrauka fram í janúar). Ég ætla að fara þessa mánuði á yfirnattúrulegri jákvæðni og reyna læra sem mest. Svo ætla ég að reyna að losna í janúar."

„Ég hreinlega veit það ekki," segir Orri aðspurður út í það hvað það væri sem væri á næst á dagskrá hjá sér. „Ég þarf bara að setjast niður með umboðsmanni mínum í janúar og sjá hvað ég get gert. Ég á tvö ár eftir hérna þannig að það þarf að kaupa mig á einhvern pening og það gæti kannski lokað einhverjum dyrum. Ég veit hreinlega ekki hvað gerist. En ég geri allt til að losna í janúar."

Er Ísland möguleiki?

„Topplið á Íslandi er alls ekkert skref niður á við frá Sarpsborg. Ég þarf bara að fá að spila og fara í lið sem ber virðingu fyrir mér og mínum gæðum. Íslenska deildin fyrir mér er alltaf möguleiki. Auðvitað vil ég vera úti en það þarf að vera eitthvað spennandi til að ég hoppi á það," sagði Orri að lokum en hann var orðaður við endurkomu í Val í slúðurpakkanum í gær.
Athugasemdir
banner
banner