Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 16. nóvember 2021 09:06
Elvar Geir Magnússon
Mun ítalska martröðin endurtaka sig?
Þvílík martröð (en þessu er ekki lokið).
Þvílík martröð (en þessu er ekki lokið).
Mynd: La Gazzetta dello Sport
„Þvílík martröð" segir fyrirsögn La Gazzetta dello Sport eftir að Ítalía náði ekki að vinna Norður-Írland í gær og endaði í öðru sæti riðils síns í undankeppni HM.

Flestir bjuggust við að Ítalía myndi vinna riðil sinn nokkuð örugglega og þar með tryggja sér beinan þátttökurétt á HM í Katar. En Sviss vann riðilinn og sendi Ítalíu í tólf liða umspil þar sem þrjú sæti eru í boði.

Ítalska þjóðin er í áfalli og fjölmiðlar rifja upp martröðina frá 2017 þegar Ítalía tapaði gegn Svíþjóð í tveggja leikja einvígi og mistókst að komast á HM í Rússlandi 2018.

Munum komast á HM og jafnvel vinna mótið
„Við munum tryggja okkur HM-sætið í mars, svo munum við kannski fara alla leið í keppninni og vinna hana," sagði kokhraustur Roberto Mancini, landsliðsþjálfari Ítalíu, eftir markalausa jafnteflið í Belfast í gær.

„Þrátt fyrir að stýra leikjum þá gengur ekki vel hjá okkur að skora mörk. Við þurftum að ná að skora snemma í kvöld. En við misstum ekki af toppsætinu í þessum leik, við áttum að klára dæmið fyrr í riðlinum. En ég er sannfærður um að við vinnum þetta umspil í mars."

Þurfa að finna leikgleðina á ný
Varnarmaðurinn reynslumikli Leonardo Bonucci tók í sama streng og þjálfari sinn. Hann segist sannfærður um að Ítalía tryggi sér HM sætið í umspilinu.

„Við þurfum að hlaða rafhlöðurnar, bæði líkamlega og andlega. Við þurfum að finna aftur ákveðnina og leikgleðina sem einkenndu fótboltann sem við spiluðum á EM. Við spiluðum fótbolta með ánægjuna að vopni. Kannski breytti það einhverju ómeðvitað að við urðum Evrópumeistarar," segir Bonucci.
Athugasemdir
banner
banner
banner