banner
   þri 16. nóvember 2021 15:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
U21: Íslenska liðið fór ansi illa að ráði sínu í Grikklandi
Icelandair
Fyrirliðinn Brynjólfur er sennilega ansi svekktur, eins og liðsfélagar hans.
Fyrirliðinn Brynjólfur er sennilega ansi svekktur, eins og liðsfélagar hans.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grikkland U21 1 - 0 Ísland U21
1-0 Giannis Michallidis ('37 , víti)
1-0 Brynjólfur Willumsson (f) ('71 , misnotað víti)
Rautt spjald: Georgios Kanellopoulos, Grikkland U21 ('46) Lestu um leikinn

Í dag lék Ísland sinn fimmta leik í undankeppninni fyrir EM 2023. Andstæðingurinn var Grikkland og var leikið í Tripoli í Grikklandi.

Ísland lenti undir á 37. mínútu þegar Giannis Michallidis sendi Jökul Andrésson í rangt horn þegar hann tók vítaspyrnu. Finnur Tómas Pálmason hafði gerst brotlegur í teignum þegar Grikkir sóttu.

Grikkir leiddu í hálfleik en á upphafsmínútu seinni hálfleiks urðu heimamenn manni færri. Georgios Kanellopoulous fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Viktori Örlygi Andrasyni.

Íslenska liðið sótti nánast án afláts það sem eftir lifði leiks. Á 69. mínútu fékk Ísland vítaspyrnu þegar brotið var á Hákoni Arnari Haraldssyni. Brynjólfur Andersen Willumsson, fyrirliði liðsins, steig á punktinn en skaut í utanverða stöngina og af stönginni fór boltinn aftur fyrir. Brynjólfur var eðlilega ansi svekktur og var í kjölfarið tekinn af velli.

Íslenska liðið sótti og sótti en náði einfaldlega ekki að skora. Í uppbótartíma hrökk boltinn á Kristal Mána Ingason en á einhvern ótrúlegan hátt náði markvörður Grikkja að verja.

Lokatölur 1-0 fyrir heimamenn sem eru með fjórtán stig í efsta sæti riðilsins. Hvíta-Rússland vann öruggan sigur á Liechtenstein í dag og Portúgal mætir Kýpur í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner