Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 16. desember 2018 15:29
Ívan Guðjón Baldursson
England: Loks tapar Arsenal - Hazard sá um Brighton
Mynd: Getty Images
Southampton tókst að leggja Arsenal að velli er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í dag og var það fyrsti tapleikur Arsenal í 23 leikjum í öllum keppnum, eða frá 3-2 tapi gegn Chelsea í ágúst.

Þetta var fyrsti heimaleikur Southampton undir stjórn Ralph Hasenhuttl sem tók við félaginu þegar Mark Hughes var rekinn í byrjun mánaðar.

Southampton byrjaði leikinn af krafti og fór beint í mikla hápressu sem gestirnir áttu erfitt með að spila sig úr, en Granit Xhaka byrjaði sem miðvörður vegna meiðslavandræða í vörninni.

Danny Ings kom heimamönnum yfir eftir góða fyrirgjöf frá Matt Targett en Henrikh Mkhitaryan jafnaði skömmu síðar með skalla eftir laglegan bolta frá Nacho Monreal.

Ings kom sínum mönnum yfir á nýjan leik rétt fyrir leikhlé, eftir fyrirgjöf frá Nathan Redmond. Mkhitaryan jafnaði snemma í síðari hálfleik þegar skot hans fór af varnarmanni og í netið en hvorugu liði tókst að skora þar til undir lokin.

Varamennirnir Shane Long og Charlie Austin sáu um að stela sigrinum á 85. mínútu þegar varnarleikur Arsenal hrundi og Bernd Leno fór í skógarhlaup.

Chelsea heimsótti Brighton á sama tíma og var Eden Hazard allt í öllu þar. Hazard lagði fyrsta mark leiksins upp fyrir Pedro og tvöfaldaði forystuna eftir góða stungusendingu frá Willian.

Solomon March minnkaði muninn fyrir heimamenn í síðari hálfleik en meira var ekki skorað og verðskuldaði Chelsea sigurinn.

Chelsea er komið yfir Arsenal á stigum eftir leiki dagsins og er í fjórða sæti, með 37 stig. Arsenal er þremur stigum á eftir, átta stigum fyrir ofan Manchester United sem heimsækir Liverpool von bráðar.

Southampton 3 - 2 Arsenal
1-0 Danny Ings ('20)
1-1 Henrikh Mkhitaryan ('28)
2-1 Danny Ings ('44)
2-2 Henrikh Mkhitaryan ('53)
3-2 Charlie Austin ('85)

Brighton 1 - 2 Chelsea
0-1 Pedro ('17)
0-2 Eden Hazard ('33)
1-2 Solomon March ('66)
Athugasemdir
banner
banner