Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 16. desember 2018 06:00
Arnar Helgi Magnússon
Helstu niðurstöður frá aðalfundi KÞÍ
Mynd: Merki
Óli Stefán var valinn þjálfari ársins á fundinum.
Óli Stefán var valinn þjálfari ársins á fundinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðalfundur KÞÍ var haldinn í Smáranum í Kópavogi, fimmtudaginn 13. desember. Um 20 manns sóttu fundinn.

Helstu niðurstöður fundarins (eftir dagskrárliðum) eru eftirfarandi:
• Fundarsetning. Fundurinn kaus Garðar Smára Gunnarson sem fundarstjóra og Halldór Þ. Halldórsson sem fundarritara.
• Skýrsla stjórnar. Sigurður Þórir Þorsteinsson formaður kynnti skýrslu stjórnar og var hún samþykkt einróma. Verður skýrslan birt í heild sinni inni á heimasíðu KÞÍ.
• Reikningar félagsins. Birgir Jónasson gjaldkeri fór yfir rekstrar- og efnahagsreikning félagsins. Félagsmenn samþykktu reikningana en fjárhagsstaða félagsins er góð.
• Lagabreytingar. Birgir Jónasson gjaldkeri kynnti tillögur að breytingum á lögum félagsins en allar komu þær frá stjórn félagsins. Allar breytingarnar voru samþykktar.
• Kosning formanns, stjórnarmanna og varamanna. Sigurður Þórir Þorsteinsson var kosinn formaður til næstu tveggja ára og með honum í stjórn sitja Birgir Jónasson gjaldkeri, Hákon Sverrisson varaformaður, Halldór Þ. Halldórsson ritari, Aðalbjörn Hannesson meðstjórnandi. Daði Rafnsson og Kristján Gylfi Guðmundsson voru kosnir varamenn. Theodór Sveinjónsson varaformaður og Bjarki Már Sverrisson varamaður gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn KÞÍ.
• Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Stjórn lagði til að skoðunarmenn reikninga yrðu áfram Ómar Jóhannsson og Birkir Sveinsson. Félagsmenn samþykktu tillöguna einróma. Ómar og Birkir hafa verið skoðunarmenn reikninga í fjölda ára og því vill stjórn þakka þeim fyrir vel unnin störf.
• Ákvörðun um árgjald. Stjórn lagði til að árgjald félagsmanna yrði óbreytt, 6.000 kr. Tillagan var samþykkt. Stjórn KÞÍ styrkir félagsmenn með fræðsluerindum og fræðslustyrkjum. Á þessu ári fylgdi einnig hálskragi merktur KÞÍ. Stjórn vill hvetja knattspyrnuþjálfara til þess að sameinast í eitt félag, ganga til liðs við KÞÍ og gera félagið enn sterkara á komandi árum. Við erum þið! Ykkar hagur er okkar hagur!
• Önnur mál. Ekkert mál var rætt undir þessum lið. Hins vegar var Theodóri Sveinjónssyni, sem starfað hefur í stjórn KÞÍ síðastliðin 10 ár, veitt gullmerki KÞÍ af stjórn félagsins. Theodór hefur unnið ötullega að eflingu félagsins og unnið verk sín af kostgæfni. Kærar þakkir „TEDDI“!

Í lok fundar voru viðurkenningar til þjálfara í meistaraflokki og yngri flokkum, venju samkvæmt.

• Þjálfari ársins í meistaraflokki karla 2018: Óli Stefán Flóventsson Grindavík (nú KA).
• Þjálfari ársins í meistaraflokki kvenna 2018: Þorsteinn Halldórsson Breiðabliki.
• Viðurkenningar til þjálfara ársins í yngri flokkum: Magnús Örn Helgasson Gróttu, Ómar Ingi Guðmundsson HK, Ragnar Gíslason HK og Tryggvi Björnsson Breiðabliki.

Að loknum aðalfundi kom ný stjórn félagsins saman og skipti með sér verkum fyrir komandi starfsár. Á fundinum var borin fram tillaga um að styrkja Tómas Inga Tómasson, knattspyrnuþjálfara og félagsmann KÞÍ. Tómas hefur verið að berjast við að ná sér eftir að hafa verið við dauðans dyr eftir nokkrar misheppnaðar aðgerðir á mjöðm. Stjórn tók ákvörðun um að styrkja Tómas um 100.000 kr. sem er andvirði tveggja 50.000 kr. þjálfarastyrkja sem auglýstir voru síðasta haust en gengu ekki út. Með þessu vill KÞÍ sýna stuðning í verki og styrkja Tómas í baráttunni og óska honum og fjölskyldu velfarnaðar.

Reykjavík, 15. desember 2018,
virðingarfyllst,
Stjórn KÞÍ.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner