fim 17. janúar 2019 10:44
Elvar Geir Magnússon
Higuain vildi ekkert tjá sig - „Voruð þið að bíða eftir mér?"
Gonzalo Higuain mætir til Ítalíu.
Gonzalo Higuain mætir til Ítalíu.
Mynd: Milan News
Higuain spilar hjá AC Milan á lánssamningi frá Juventus.
Higuain spilar hjá AC Milan á lánssamningi frá Juventus.
Mynd: Getty Images
Chelsea er sagt vera nálægt því að krækja í sóknarmanninn reynda Gonzalo Higuain á lánssamningi.

Menn reyndu að næla í ummæli frá Argentínumanninum á flugvellinum þegar hann kom aftur til Ítalíu eftir að hafa komið inn sem varamaður þegar AC Milan tapaði 1-0 fyrir Juventus í ítalska Ofurbikarnum. Leikurinn var í Sádi-Arabíu.

„Voruð þið allir að bíða eftir mér? Ef þið viljið búa til fjölmiðlafár þá er ég ekki rétti maðurinn á þessum tímapunkti," segir Higuain.

Þessi 31 árs leikmaður er hjá Juventus en er á láni hjá Milan.

Ef hann fer til Chelsea verður hann lánaður út tímabilið með möguleika á framlengingu um eitt tímabili í viðbót.

Ef Higuain fer til Chelsea gæti það þýtt að Alvaro Morata yfirgefi félagið. Talað hefur verið um mögulega endurkomu Morata til Spánar og hann verið orðaður við Atletico Madrid.

Maurizio Sarri, stjóri Chelsea, treystir Higuain í sitt leikkerfi en leikmaðurinn blómstraði undir hans stjórn hjá Napoli.

Michy Batshuayi gæti farið til AC Milan í stað Higuain en sagt er að hann vilji frekar fara til Mónakó.

Talsvert mikið er rætt um Chelsea í janúarglugganum. Bayern München staðfesti á dögunum að félagið er í viðræðum um kaup á hinum unga og spennandi Callum Hudson-Odoi.

Chelsea mætir Arsenal á laugardaginn, í leik sem gæti sagt mikið í baráttu um Meistaradeildarsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner