fös 17. febrúar 2017 17:38
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Akraborgin 
Máni: Fimm leikmenn í landsliðinu sem eiga ekkert erindi
Máni Pétursson gagnrýnir val Freys Alexanderssonar.
Máni Pétursson gagnrýnir val Freys Alexanderssonar.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
„Ég verð að segja það hreint út að ég skil þetta. Ég ætla að segja það hreint út að það eru fimm leikmenn í þessum landsliðshóp sem eiga ekkert erindi þarna. Það eru allavega fimm leikmenn sem hafa ekki sýnt okkur síðustu 12-18 mánuðina að þeir eiga nokkuð erindi í að fara með landsliðinu út," segir fjölmiðlamaðurinn Þorkell Máni Pétursson í samtali við Akraborgina á X-inu FM 97,7.

Máni er ósáttur við val Freys Alexanderssonar, landsliðsþjálfara kvenna, á hópnum sem valinn var fyrir Algarve-æfingamótið. Kvennalandsliðið er að búa sig undir lokakeppni Evrópumótsin sem fram fer í Hollandi í sumar.

Aðilar innan Stjörnunnar hafa lýst furðu sinni á valinu, þar á meðal Victor Ingi Olsen starfsmaður félagsins sem furðar sig á því hversu marga fulltrúa Valur á. Þorkell Máni er sammála þessari gagnrýni.

„Það eru átta leikmenn úr Val í hópnum og önnur félög í deildinni eru öll samtals með sjö. Miðað við þetta landsliðsval ætti Valur að vinna þessa deild með 10-15 stigum. Það er aldrei að fara að gerast. Það verður vissulega að gefa landsliðsþjálfara það að hann verður að velja leikmenn sem hann treystir og þekkir. Valsliðið sýndi okkur samt alls ekki í fyrra að þar færu stórir og miklir karakterar. Það fór allavega framhjá mér."

Máni tekur það fram að hann sé meðvitaður um að Harpa Þorsteinsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir úr Stjörnunni hefðu verið í hópnum ef þær hefðu verið leikfærar.

Hjörtur Hjartarson, sem tók viðtalið við Mána, reyndi að fá Mána til að nefna nöfn í sinni gagnrýni en Máni sagði að hann hefði viljað sjá yngri leikmenn fá tækifæri.

„Ég hélt að Freyr myndi henda einni ungri og efnilegri inn bara til að sprengja upp hópinn. En nei þetta eru stelpur sem hafa verið í landsliðsverkefnum síðustu 10-15 árin. Sumar hafa ekkert erindi þarna og voru arfaslakar í fyrra. Sumar voru á mörkunum að kunna rangstöðuregluna. Þetta eru bara staðreyndir. Þetta er í landsliðinu, mér finnst það skrítið," sagði Máni í Akraborginni.
Athugasemdir
banner
banner
banner