Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 17. mars 2019 15:20
Atli Arason
Af hverju var ekki notuð myndbandsdómgæsla í leik Swansea og Manchester City?
Myndbandsdómarar að störfum
Myndbandsdómarar að störfum
Mynd: Getty Images
Guardiola vill hvorki vinna né tapa leikjum á röngum dómaraákvörðunum
Guardiola vill hvorki vinna né tapa leikjum á röngum dómaraákvörðunum
Mynd: Getty Images
Manchester City er komið áfram í undanúrslit FA bikarsins eftir að hafa borið sigur úr bítum í viðureign sinni gegn Swansea City á Liberty vellinum í gærdag. Manchester City kom til baka og vann leikinn 2-3 eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik.

Mikið hefur verið rætt og ritað um dómgæsluna á leiknum í gær en annað og þriðja mark City hafa verið sérstaklega umdeild. Sergio Aguero skoraði bæði mörkin en fyrra markið skoraði hann úr vítaspyrnu en spyrnan fór í stöngina, þaðan í markmanninn Kristoffer Nordfeldt og inn, sjálfsmark.
Vítaspyrnan var dæmd eftir að Raheem Sterling féll í teignum eftir brot Cameron Carter-Vickers, varnarmanns Swansea. Endursýningar sýna að Carter-Vicker virðist hafa náð að pota í boltann fyrst, áður en hann tekur Sterling niður inn í vítateignum. Andree Marriner, dómari leiksins, flautaði um leið og benti á vítaspyrnu punktinn.
Í þriðja marki City og seinna marki Aguero er hann án vafa rangstæður er sendingin kemur inn í teig af vinstri kanti frá Bernando Silva.

Aðspurður um dómgæsluna í gær baðst Guardiola afsökunar en beinir spjótunum að enska knattspyrnusambandinu.

„Í hreinskilni sagt þá sá ég atvikin ekki nógu vel. Ef þetta var ekki víti og ef við skorum rangstöðumark eins og fólk er að tala um þá biðst ég afsökunar. Þið verðið hins vegar að beina spurningum ykkar að knattspyrnusambandinu hvers vegna myndbandsdómgæsla var ekki notuð í dag. Á síðasta tímabili voru félögin spurð hvort þau vildu taka upp VAR kerfi eins og er notað víða í Evrópu og Manchester City kaus með þeirri tillögu. Mér líkar ekki að vinna leiki þegar dómara ákvarðanir eru rangar." sagði Guardiola á fréttamannafundi eftir leikinn í gær.

Samtök félaga í ensku úrvalsdeildinni höfnuðu því í apríl á síðasta ári að taka upp myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni fyrir keppnistímabilið 2018-2019 en samþykktu að haldið yrði áfram að þróa VAR með því að nota kerfið í enskum bikarkeppnum.

Enska knattspyrnusambandið segir hins vegar í reglugerð sinni að ekki sé gerð krafa á þau lið, sem eru utan úrvalsdeildarinnar, að hafa VAR kerfið á keppnisvöllum sínum. VAR búnaðurinn er mikil fjárhagsleg skuldbinding fyrir félögin og stefnt er að því innleiða hann í úrvalsdeildinni innan fárra ára og því er eins og áður var nefnt ekki gerð krafa að lið utan úrvalsdeildarinnar séu með þennan búnað á sínum leikvöllum.

Swansea City féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð eftir átta ára veru meðal þeirra bestu og er félagið því með allan þann búnað sem þarf til þess að halda uppi myndbandsdómgæslu á Liberty vellinum. Enska knattspyrnusambandið vill samt halda samræmi milli leikja í keppninni og því var enginn sérstakur myndbandsdómari settur á þennan leik eða leik Millwall og Brighton, sem báðir fóru fram á leikvelli félags sem stendur utan úrvalsdeildarinnar. Myndbandsdómarar voru þó á viðureignum Wolves við Manchester United og Watford við Crystal Palace, leikjum sem fóru fram á heimavelli úrvalsdeildarliðs.
Myndbandsdómgæsla verður hins vegar notuð á báðum undanúrslitaleikjum sem og úrslitaleiknum sjálfum en ásamt Manchester City eru Wolves og Watford kominn í undanúrslitin og það mun síðan skýrast seinna í dag hvort það verður Millwall eða Brighton sem fylgir þeim þangað. Undanúrslita- og úrslitaleikirnir fara allir fram á Wembley leikvanginum í London.

Hér fyrir neðan má sjá allt það helsta úr leiknum í gær en umrædd atvik eiga sér stað á 7:45 og 9:28 mín myndbandsins.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner