Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 17. mars 2019 13:55
Ívan Guðjón Baldursson
Szczesny um tíma sinn hjá Arsenal: Fundum Wilshere sofandi í runna
Mynd: Getty Images
Wojciech Szczesny, markvörður Juventus, opnaði sig um dvöl sína hjá Arsenal í viðtali í pólska sjónvarpsþættinum Foot Truck.

Hann byrjaði á að tala um drykkju leikmanna og nefndi þar Alexandr Hleb og Jack Wilshere.

„Hleb hefði getað áorkað meiru í fótboltaheiminum. Hann átti frábæran feril en honum fannst gaman að drekka. Wilshere var besti vinur minn hjá Arsenal og honum fannst líka gaman að fá sér," sagði Szczesny.

„Í giftingunni minni var hann svo fullur að við þurftum að leita að honum í tvo tíma. Á endanum fundum við hann sofandi í runna. Wilshere er einn hæfileikaríkasti knattspyrnumaður sem ég hef nokkurn tímann séð en meiðsli eyðilögðu ferilinn hans."

Szczesny fór svo að tala um Robin van Persie, sem var á góðri leið með að verða alvöru goðsögn hjá Arsenal áður en hann skipti yfir til Manchester United.

„Ég verð að viðurkenna að hann vann titil á sínu fyrsta ári hjá Man Utd. Eftir það datt hann á bekkinn, fór til Tyrklands og ferill hans með stórliðum tók enda.

„Hann hefði getað tekið öðruvísi ákvarðanir og afrekað mikið meira hjá Arsenal. Hann getur verið ótrúlega hrokafullur stundum."


Að lokum talaði markvörðurinn um Thierry Henry sem er ein mesta goðsögn í sögu Arsenal.

„Hann er besti leikmaður í sögu Arsenal og ensku úrvalsdeildarinnar. Hann gaf ekkert eftir og dró fram gæði úr samherjum sínum. Strákarnir voru hræddir við hann á æfingum því hann var óhræddur við að láta mann heyra það fyrir að klúðra svo miklu sem sendingu. Hann er frábær náungi."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner