Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 17. mars 2020 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mangala hélt að læknirinn væri að grínast
Eliaquim Mangala.
Eliaquim Mangala.
Mynd: Getty Images
Eliaquim Mangala, varnarmaður Valencia á Spáni, hélt að það væri um grín að ræða þegar hann var greindur með kórónuveiruna.

Greint hefur verið frá því að 35% leikmanna og starfsmanna Valencia hafi greinst með veiruna. Mangala er í þeim hópi og er hann núna í sóttkví á heimili sínu.

Í viðtali við L'Equipe í Frakklandi sagði Mangala: „Síðasta föstudag voru framkvæmd próf hjá félaginu. Einföld próf. Ég var ekki með nein einkenni og þetta var bara eins og hver annar dagur hjá mér."

„Svo var mér sagt á sunnudaginn að ég væri með veiruna og það kom mér gríðarlega á óvart. Ég hélt fyrst að það væri einhver að grínast í mér. En þegar læknirinn fór að tala um sóttkví í 14 daga og að ég þyrfti að vera fjarri börnunum mínum þá vissi ég að þetta væri ekkert grín."

„Ég er í sóttkví heima hjá mér. Ég er heppinn að eiga hús þar sem fjölskylda mín getur verið einangruð. Ég er á einni hæð og fjölskyldan mín er á hæðinni fyrir ofan mig. Við reynum að forðast hvert annað eins og mögulegt er."

Dagurinn er einfaldur hjá Mangala. „Ég er ekki með nein einkenni og því held ég áfram að æfa. Þeir (Valencia) gáfu okkur áætlun. Ég fer út í garð með grímu á mér og held áfram að æfa. Svo horfi ég á heimildarmyndir, bíómyndir og spila tölvuleiki."

Franski varnarmaðurinn segist horfa mikið á Netflix eins og Daniele Rugani, varnarmaður Juventus, sem er einnig einkennalaus.

Mangala er 29 ára gamall og er fyrrum leikmaður Manchester City og Everton meðal annars. Hann fór á frjálsri sölu frá Man City til Valencia síðasta sumar og gerði þá tveggja ára samning.

Allir hjá Valencia eru í sóttkví í augnablikinu en keppni í spænsku úrvalsdeildinni hefur verið stöðvuð næstu vikurnar.


Athugasemdir
banner
banner
banner