Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 17. mars 2021 12:20
Elvar Geir Magnússon
Í beinni
Í beinni - Arnar opinberar landsliðshópinn
Hópurinn opinberaður 13:00
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson.
Arnar Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net
Í dag, miðvikudaginn 17. mars, mun Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari A karla, tilkynna hóp liðsins fyrir leikina þrjá í mars.

Fréttamannafundurinn hefst 13:15 og verður fylgst með honum í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net

Þetta eru fyrstu leikir Íslands undir stjórn Arnars Þórs og eru þeir allir þrír liður í undankeppni HM 2022, en lokakeppnin fer fram í Katar.

Ísland mætir fyrst Þýskalandi, síðan Armeníu og endar svo á leik gegn Liechtenstein, en allir leikirnir fara fram ytra. Þess má geta að leikurinn gegn Þýskalandi verður leikur númer 500 hjá A karla.

Leikir Íslands í mars

Þýskaland - Ísland fimmtudaginn 25. mars á Schauinsland-Reisen Arena í Duisburg og hefst leikurinn kl. 19:45.

Armenía - Ísland sunnudaginn 28. mars á Vazgen Sargsyan Republican Stadium í Yerevan og hefst leikurinn kl. 16:00.

Liechtenstein - Ísland miðvikudaginn 31. mars á Rheinpark og hefst leikurinn kl. 18:45.
13:49
Fundinum er lokið. Það er ýmislegt sem þar kom fram en ekki var greint frá í þessari lýsingu. Við hendum inn fréttum á síðuna.

Takk fyrir samfylgdina!

Eyða Breyta
13:49
Arnar Þór Viðarsson segir ekkert til í því að einhverjir leikmenn hafi fengið að velja hvort þeir fengju að fara í A-landsliðið eða í U21 verkefnið.

"Finnst þér það líklegt?" spyr Arnar brosandi þegar hann er spurður út í þessar sögur.

Eyða Breyta
13:40
Lars kemur til Þýskalands og svo verður staðan tekin, það er ekki alveg ljóst hvort hann fari til Armeníu þar sem hann vill ekki taka neina áhættu. Svo er planið að hann verði pottþétt aftur með liðinu í Liechtenstein.

Lars er ekki búinn að fá bólusetningu og vill ekki taka neina áhættu vegna Covid-19.

Eyða Breyta
13:36
Kemur til greina að færa Þýskalandsleikinn annað?

"Það er undir UEFA komið. Stærsta vandamálið hjá okkur er að við erum ekki félagslið, þetta eru landslið og leikmenn að spila á mismunandi stöðum. Þetta er ákvörðun sem er algjörlega tekin hjá UEFA."

Eyða Breyta
13:31
Spurt er út í stöðuna hjá Kolbeini Sigþórssyni.

Eiður Smári: "Kolbeinn virkar í nokkuð góðu ásigkomulagi og er fullur tilhlökkunar. Álagsstýringin er mikilvæg hjá honum. Hann er samt allavega heill heilsu. Það eru frábærar fréttir fyrir landsliðið en ekki fyrir markametið mitt!"

Eyða Breyta
13:29
Verður Guðlaugur Victor á miðjunni?

"Líklega. Hann hefur sýnt og sannað að hann getur spilað hægri bakvörð. Við viljum samt helst ekki vera að spila mönnum út úr stöðum. Við sjáum hann meira sem miðjumann."

Eyða Breyta
13:25
Arnar: "Gylfi og Jói eru að bíða eftir svörum eins og við öll. Þessir leikmenn gera sér grein fyrir því að þeir hafa ekki stjórn á þessum aðstæðum. Það var tekin ákvörðun snemma um að pirra sig ekki á þessu, við getum ekki stjórnað þessu. Leikmennirnir vilja ólmir fara til Þýskalands"

Eyða Breyta
13:22
Arnar: "Ef Þýskaland opnar ekki fyrir leikmenn okkar þá köllum við leikmenn úr U21 hópnum. Við viljum að strákarnir fái reynsluna af því að spila á lokamóti. A-landslið karla er samt sem áður efst í píramídanum."

Arnar segir að þetta sé ástæðan fyrir því að beðið hafi verið með það að tilkynna U21 landsliðshópinn og svari vangaveltum um hinn meinta "leka".

Eyða Breyta
13:20
ENN ÓVISSA MEÐ LEIKMENN SEM SPILA Á ENGLANDI

Geta leikmenn okkar í ensku úrvalsdeildinni ekki spilað gegn Þýskalandi?

Arnar: "Það er enn spurningamerki með Þýskaland, hvort leikmennirnir okkar sem spila á Bretlandseyjum fái að koma inn til Þýskalands. Við erum að bíða eftir svörum frá UEFA og þýskum yfirvöldum. Það er stærsti óvissuþátturinn í þessu öllu saman."

Eyða Breyta
13:19
Arnar hrósar starfsliði KSÍ og þeim sem standa að landsliðinu. Ferðatakmarkanir hafa reynst hindrun en vel hafi verið leyst úr því.

Arnar lýsir yfir ánægju með leikformið og standið á landsliðsmönnunum okkar.

Eyða Breyta
13:17
Arnar Viðarsson segir að mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni sé framundan. Undirbúningurinn hingað til hafi verið mjög skemmtilegur og gaman hafi verið að fylgjast með "okkar drengjum" spila um alla Evrópu.

Eyða Breyta
13:14


Eyða Breyta
13:13
Þá fer fréttamannafundurinn að hefjast. Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen taka við spurningum.

Eyða Breyta
13:04


Eyða Breyta
13:01
Um er að ræða 25 manna leikmannahóp og þar eru mjög margir reynslumiklir leikmenn.

Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru báðir valdir en óttast hafði verið að ferðatakmarkanir í Englandi gætu gert þeim erfitt fyrir að taka þátt. Gylfi hefur einnig verið að glíma við meiðsli en virðist vera klár í slaginn.

Arnór Sigurðsson og Alfons Sampsted eru í hópnum en þeir verða því ekki með U21 landsliðinu í lokakeppni EM í Ungverjalandi.

Þrír leikmenn úr Pepsi Max-deildinni eru í hópnum en Hannes Þór Halldórsson, Birkir Már Sævarsson og Kári Árnason.

Alfreð Finnbogason er ekki í hópnum vegna meiðsla og Viðar Örn Kjartansson er heldur ekki með. Hólmbert Aron Friðjónsson og Björn Bergmann Sigurðarson koma inn síðan í síðasta verkefni í október.

Eyða Breyta
13:00
Hópurinn

Markverðir:

Hannes Þór Halldórsson | Valur | 74 leikir

Ögmundur Kristinsson | Olympiacos | 17 leikir

Rúnar Alex Rúnarsson | Arsenal | 7 leikir

Aðrir leikmenn:

Birkir Már Sævarsson | Valur | 95 leikir, 2 mörk

Guðlaugur Victor Pálsson | Darmstadt | 23 leikir

Sverrir Ingi Ingason | PAOK | 36 leikir, 3 mörk

Ragnar Sigurðsson | Rukh Lviv | 97 leikir, 5 mörk

Alfons Sampsted | Bodö Glimt | 2 leikir

Ari Freyr Skúlason | KV Oostende | 77 leikir

Kári Árnason | Víkingur R. | 87 leikir, 6 mörk

Hörður Björgvin Magnússon | CSKA Moscow | 34 leikir, 2 mörk

Hólmar Örn Eyjólfsson | Rosenborg | 19 leikir, 2 mörk

Hjörtur Hermannsson | Bröndby | 18 leikir, 1 mark

Aron Einar Gunnarsson | Al Arabi | 91 leikur, 2 mörk

Birkir Bjarnason | Brescia | 92 leikir, 13 mörk

Rúnar Már Sigurjónsson | CFR Cluj | 30 leikir, 1 mark

Arnór Ingvi Traustason | New England Revolution | 37 leikir, 5 mörk

Gylfi Þór Sigurðsson | Everton | 78 leikir, 25 mörk

Jóhann Berg Guðmundsson | Burnley | 77 leikir, 8 mörk

Arnór Sigurðsson | CSKA Moscow | 11 leikir, 1 mark

Jón Daði Böðvarsson | Millwall | 55 leikir, 3 mörk

Kolbeinn Sigþórsson | IFK Göteborg | 60 leikir, 26 mörk

Albert Guðmundsson | AZ Alkmaar | 18 leikir, 3 mörk

Hólmbert Aron Friðjónsson | Brescia | 4 leikir, 2 mörk

Björn Bergmann Sigurðarson | Molde | 17 leikir, 1 mark

Eyða Breyta
12:59
Alfons í hópnum (Staðfest)



Eyða Breyta
12:53


Ætli Lalli verði á fundinum?

Eyða Breyta
12:46
Hópurinn sjálfur verður opinberaður 13:00

Við vorum að fá upplýsingar um það að hópurinn verði opinberaður á slaginu 13. Stundarfjórðungi síðar hefst svo fréttamannafundurinn.

Eyða Breyta
12:18
Svona er dagskráin, búin/n að merkja á dagatalið?

FIMMTUDAGUR 25. MARS
17:00 U21: Rússland - Ísland
19:45 A: Þýskaland - Ísland

SUNNUDAGUR 28. MARS
13:00 U21: Ísland - Danmörk
16:00 A: Armenía - Ísland

MIÐVIKUDAGUR 31. MARS
16:00 U21: Ísland - Frakkland
18:45 A: Liechtenstein - Ísland

Eyða Breyta
12:16
Það verða spennandi ungstirni í þýska landsliðshópnum!

Joachim Löw landsliðsþjálfari Þýskalands mun í lok vikunnar opinbera landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni. Hann hefur staðfest að táningarnir Jamal Musiala úr Bayern Munchen og Florian Wirtz úr Bayer Leverkusen verði í hópnum.

Musiala er 18 ára og gat valið milli þess að spila fyrir England eða Þýskaland. Hann valdi Þýskaland á dögunum. Ótrúlega hæfileikaríkur sóknarleikmaður sem hefur skorað þrjú mörk í þýsku deildinni á tímabilinu og eitt í Meistaradeildinni.

Wirtz er 17 ára sóknarmiðjumaður sem hefur skorað fjögur mörk og átt fimm stoðsendingar í 21 leik í þýsku Bundesligunni á þessu tímabili.

Eyða Breyta
12:05
A-landsliðið getur kallað upp úr U21 í miðjum glugga

Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Anderson eru meðal leikmanna sem valdir eru í U21 hópinn. Á sama tíma og U21 mótið fer fram þá leikur A-landsliðið fyrstu þrjá leiki sína í undankeppni HM.

Reglur UEFA eru á þá leið að A-landsliðið getur alltaf kallað einhvern upp úr U21 hópnum. Sem dæmi gæti Jón Dagur mögulega leikið fyrsta leik/fyrstu leiki U21 liðsins en farið svo á móts við A-landsliðið og leikið fyrir það gegn Armenum eða Liechtenstein.

Á hinn bóginn getur U21 ekki fengið leikmenn niður úr A-landsliðshópnum.



Eyða Breyta
11:52
Fengu einhverjir að velja sér verkefni?

Gummi Ben segir í hlaðvarpsþættinum Sportið í dag að samkvæmt sínum heimildum hafi einhverjir leikmenn fengið þann lúxus að velja hvort þeir myndi spila með A-landsliðinu eða U21-landsliðinu!

Getur það verið? Komumst væntanlega að því á fréttamannafundinum á eftir.




Eyða Breyta
11:47
Enginn að ógna stöðu Hannesar?



Búist er við því að Hannes Þór Halldórsson verði áfram aðalmarkvörður landsliðsins. Hans helstu keppinautar um stöðuna milli stanganna, Rúnar Alex Rúnarsson og Ögmundur Kristinsson, eru lítið sem ekkert að spila með sínum félagsliðum.

Það eru efnilegir markverðir að koma upp en þeirra tími er ekki alveg kominn.

Eyða Breyta
11:44
Verður Kári í hópnum?

Kári Árnason er 38 ára og talaði um það eftir landsleikina á síðasta ári að hann teldi ólíklegt að hann myndi spila aftur fyrir Ísland.

En Kári er okkar Zlatan og á skrifstofu Fótbolta.net er búist við því að hann verði í hópnum fyrir leikina þrjá sem framundan eru.



Eyða Breyta
11:40
Alfreð ekki með



Landsliðssóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason verður ekki með Íslandi í komandi landsleikjum. Hann hefur verið að glíma við kálfameiðsli og ekki spilað með Augsburg síðan í janúar.

"Ég talaði við landsliðsþjálfarann í síðustu viku og ekki útlit fyrir að ég verði í hópnum vegna þessara meiðsla. Kálfinn er enn til vandræða," segir Alfreð sem reiknar þó með að snúa aftur áður en tímabilið er búið.

Alfreð var í viðtali við heimasíðu þýska sambandsins og þar er rifjað upp þegar Ísland gerði markalaust jafntefli við Þýskaland á Laugardalsvelli 2003.

Alfreð var þá fjórtan ára gamall og var á vellinum. "Það var sterkt fyrir Þýskaland að ná 0-0 úr þeim leik," segir Alfreð kíminn í viðtalinu.

Setjum alltaf háleit markmið
Ísland heimsækir Þýskaland í Duisburg á fimmtudaginn í næstu viku en það er fyrsti leikur liðanna í undankeppni HM.

"Auðvitað teljum við Þýskaland sterkasta liðið í okkar riðli. Því miður höfum við ekki úr eins mörgum góðum leikmönnum að velja og Þýskaland. Það er alveg ljóst að þýska liðið er miklu sigurstranglegra en undanfarin ár hjá þýska landsliðinu hafa verið flókin," segir Alfreð.

Hann segir að erfitt sé að finna veikleika í þýska liðinu en í riðlinum eru einnig Armenía, Liechtenstein, Norður-Makedónía og Rúmenía.

"Liðið í fyrsta sæti fer beint á HM en liðið í öðru sæti fer í umspil. Okkar markmið er að enda í öðru af tveimur efstu sætunum. Við höfum aldrei verið hræddir við að setja okkur háleit markmið og breytum því ekki."

Eyða Breyta
11:33
Fá allir að vera með?

Regl­ur FIFA kveða á um að ef leik­menn þurfa að fara í sótt­kví við heim­kom­una til lands­ins sem þeir spila í þá mega fé­lög­in setja þeim stólinn fyrir dyrnar og neita þeim um að fara í landsliðsverkefni.

Þessi regla hefur skapað óvissu um það hvort þeir Gylfi Þór Sig­urðsson og Jó­hann Berg Guðmunds­son, leikmenn Everton og Burnley í ensku úrvalsdeildinni, fái grænt ljós á að spila landsleikina. Óvissa með fleiri leikmenn.

Við vonum það besta! Það er allavega ansi mikilvægt að okkar bestu menn verði með.



Eyða Breyta
11:28
Hópurinn eða beinagrind?

Á morgun á U21 landsliðshópurinn að vera tilkynntur á fréttamannafundi.

"Við staðfestum hópinn á fimmtudaginn, við þurfum alltaf að skila inn beinagrind að hópnum til UEFA. Við erum enn að vinna hlutina með A-landsliði karla," sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðsins, við 433.is í gær eftir að UEFA hafði birt hópinn.

Talað hefur verið um að þarna fari Davíð ekki með rétt mál. Bent hefur verið á að samkvæmt reglum UEFA þá þurfi knattspyrnusambönd að tilkynna staðfestan hóp tíu dögum fyrir mót. Á mánudag voru tíu dagar í mót.

KSÍ mun væntanlega útskýra betur á eftir hvernig þetta allt saman gerðist og hvort hópurinn sem UEFA birtir sé ekki örugglega réttur hópur.

Eyða Breyta
11:20
U21 hópurinn lak út



Á sama tíma og A-landsliðið hefur leik í undankeppni HM verður U21 landsliðið að spila í riðlakeppni EM. U21 liðið leikur í Ungverjalandi.

Af einhverjum ástæðum var U21 hópurinn kominn á vefsíðu UEFA í gær. Í hópnum eru Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson, sem hafa báðir spilað með A-landsliðinu. Alfons Sampsted (á mynd að neðan), sem var lykilmaður í U21 landsliðinu í undankeppninni, er ekki í hópnum og ekki heldur Arnór Sigurðsson.

Gera má ráð fyrir því að þeir séu í A-landsliðshópnum sem verður tilkynntur á eftir.



Eyða Breyta
11:15
Góðan og gleðilegan dag!

Það eru tveir tímar í fréttamannafund þar sem landsliðshópur Íslands verður tilkynntur fyrir fyrstu leikina í undankeppni HM.

Viðstaddir fundinn verða þjálfarar liðsins og aðrir fulltrúar KSÍ. Um verður að ræða TEAMS-fjarfund og við fylgjumst með öllu sem máli skiptir í beinni textalýsingu.

Fram að fundinum ætlum við að vera með nokkrar vangaveltur og pælingar.

Eyða Breyta
Athugasemdir
banner
banner