Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 17. mars 2021 12:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kórdrengir í samstarf með Ungmennafélagi Kjalarnes
Mynd: Aðsend
Kórdrengir eru komnir í samstarf með Ungmennafélagi Kjalarnes.

Kórdrengir hafa á þremur árum komist upp úr þremur deildum og leika í sumar í næst efstu deild, Lengjudeild karla. Kórdrengir eru ungt knattspyrnufélag en þeir vona að þetta samstarf stuðli að enn frekari vöxti hjá félaginu.

Yfirlýsing Kórdrengja
Í dag fagna Kórdrengir því að hafa gengið frá samkomulagi við Ungmennafélag Kjalarnes um samstarf félaganna.

Á stuttum tíma hefur lið okkar farið úr neðstu deild upp í að vera samkeppnishæft 1. deildarlið.

Vaxtaverkir fylgja árangri og ljóst að við þurfum að mæta og uppfylla nýjar kröfur og skyldur.

Knattspyrnan er það sem allt snýst um og hana kunnum við. Draumar eru til þess að elta þá og það er von okkar sem stöndum að Kórdrengjum að við getum byggt upp frá einsflokksfélagi í öflugt íþróttafélag drengja og stúlkna.

Slíkt tekur tíma en við sláum ekki slöku við. Með samstarf við Ungmennafélag Kjalnesinga þá teljum við okkur geta lagt knattspyrnunni lið og byggt upp til framtíðar. Það er trú okkar að á Kjalarnesi finnist öflugir knattspyrnumenn og með þá reynslu og þekkingu sem leikmenn okkar búa að þá teljum við að hægt sé að kveikja neista hjá ungum iðkendum við Esjurætur.

Það er markmið Kórdrengja að tefla fram öflugu knattspyrnuliði í 1. deild í sumar. Það er markmið félagsins nú sem endranær að það sé gaman að mæta á völlinn hjá liðinu að það sé sól og stemning.

En félagið gleymir ekki rótunum. Til félagsins hafa komið knattspyrnumenn víðsvegar að og eiga þeir tengingar inn í fjölmörg félög. Með það í huga er það vilji forsvarsmanna Kórdrengja að láta gott af sér leiða í knattspyrnunni hvar sem er og styðja við og efla knattspyrnuna hjá öllum félögum.

Fyrst og síðast er það knattspyrnan sem við horfum til um leið og við gætum að samfélagslegri ábyrgð okkar.

Með samkomulagi okkar við UMFK höfum við stigið fyrsta skrefið af vonandi mörgum. Knattspyrnusamband Íslands vinnur mikla vinnu að því að tryggja félögum landsins örugga og vandaða umgjörð. Það er vilji Kórdrengja að taka undir þá vinnu og halda áfram að styðja við öfluga uppbyggingu yngra flokka landsins.

Við lítum björtum augum til framtíðar og hlökkum til þessa að bjóða alla stuðningsmenn knattspyrnunnar velkomna í og á leikinn með okkur.
Athugasemdir
banner
banner