Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 17. maí 2022 13:15
Elvar Geir Magnússon
Gefst enginn tími til að fagna velgengninni
James Milner með bikarinn.
James Milner með bikarinn.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
James Milner, hinn reyndi leikmaður Liverpool, segir að kröfurnar á fremstu fótboltamenn heims séu svo miklar að þeir hafi nánast engan tíma til að fagna þeirri velgengni sem þeir njóta.

Milner fagnaði sigri Liverpool í FA-bikarnum með því að fá sér Coca Cola í rútunni frá Wembley og á flugvöllinn. Morguninn eftir var hann mættur á myndbandsfund þar sem farið var yfir leikgreiningu á Southampton.

Í viðtali við Guardian segir Milner að það að lyfta bikurum hjálpi til við að draga úr þreytu en væri þó til í að meiri tími gæfist til að fagna hverjum bikar.

Eftir sigurinn á laugardag er í kvöld komið að næsta verkefni, leik gegn Southampton sem Liverpool þarf að vinna til að halda spennunni í titilbaráttunni við Manchester City inn í lokaumferðina.

„Álagið var líklega enn erfiðara fyrir sex vikum en nú eigum við þrjá leiki eftir. Eftir allt sem við höfum gengið í gegnum; æfingarnar, leikirnir, endurheimtin og ferðalögin. Það eru þrír leikir og þó þú sért á öðrum fætinum er það þess virði að fara í gegnum það," segir hinn 36 ára Milner.

„Við vorum að vinna FA bikarinn. Hefði maður viljað fagna meira? Já en við megum ekki við því. Það er það leiðinlegasta við að vera á þessu stigi, maður vinnur bikar og þarf strax að hugsa um næsta leik. Þú vinnur úrvalsdeildina og getur notið þess í þrjár vikur í sumarfríinu þínu. Svo er bara undirbúningstímabil og byrjað upp á nýtt. Maður nær ekki að njóta velgengninnar eins mikið og maður vildi."

Bikarinn sem vannst á laugardaginn var tíundi stóri titillinn sem Milner vinnur á ferlinum. Hann verður samningslaus í sumar og hefur verið boðinn nýr tólf mánaða samningur. Hann vill bíða þar til eftir tímabilið áður en hann ákveður framtíð sína.

„Það verður bara skemmtilegra að vinna titla. Því maður veit ekki hversu marga maður á eftir," segir Milner.
Athugasemdir
banner
banner
banner