Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 17. júní 2019 08:10
Ívan Guðjón Baldursson
Copa America: Cavani og Suarez skoruðu gegn Ekvador
Lodeiro og Cavani fagna fyrsta marki leiksins.
Lodeiro og Cavani fagna fyrsta marki leiksins.
Mynd: Getty Images
Úrúgvæ 4 - 0 Ekvador
1-0 Nicolas Lodeiro ('6)
2-0 Edinson Cavani ('33)
3-0 Luis Suarez ('44)
4-0 Mina Meza ('78, sjálfsmark)
Rautt spjald: Jose Quinteros, Ekvador ('24)

Úrúgvæ lenti ekki í vandræðum í fyrstu umferð Copa America í nótt. Liðið mætti Ekvador og komst yfir strax á sjöttu mínútu þegar Nicolas Lodeiro skoraði magnað mark eftir skyndisókn. Luis Suarez átti stoðsendinguna.

Lodeiro fékk háan bolta frá Suarez og gerði ótrúlega vel. Hann tók frábæra snertingu með bringunni og lék á varnarmann í leiðinni. Áður en bolttinn snerti jörðina náði hann að lyfta honum yfir næsta varnarmann og þegar þriðji varnarmaðurinn nálgaðist kláraði Lodeiro dæmið með hnitmiðuðu skoti í hornið.

Tuttugu mínútum síðar missti Ekvador mann af velli með rautt spjald. Jose Quinteros fór þá upp í skallabolta og setti olnbogann í andlitið á Lodeiro í leiðinni. Beint rautt spjald og sá Ekvador aldrei til sólar eftir það.

Edinson Cavani tvöfaldaði forystuna og gerði Suarez þriðja markið fyrir leikhlé. Cavani skoraði með laglegri klippu eftir hornspyrnu og kom mark Suarez einnig eftir hornspyrnu. Varnarmenn Úrúgvæ unnu fyrsta skalla í teignum og skoruðu framherjarnir örugglega.

Í seinni hálfleik var aðeins eitt mark skorað og var það álíka skrautlegt og fyrri mörk leiksins. Varnarmaðurinn Arturo Mina Meza vippaði knettinum þá glæsilega yfir eigin markvörð í tilraun sinni til að hreinsa úr teignum.

Lokatölur 4-0 og góð byrjun fyrir Úrúgvæ. Síle og Japan eru einnig í riðlinum og mætast þau í kvöld klukkan 23:00 á íslenskum tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner