Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 17. júní 2022 21:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Brottreksturinn kom ekki á óvart en tímapunkturinn mjög sérstakur
Bjössi og Óli.
Bjössi og Óli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik FH og Leiknis í gær.
Úr leik FH og Leiknis í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Eiður Smári hefur verið mest orðaður við starfið.
Eiður Smári hefur verið mest orðaður við starfið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Jóhannesson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru í gær reknir sem þjálfarar FH í Bestu deildinni eftir slaka byrjun á tímabilinu.

FH gerði í gærkvöld jafntefli við Leikni í kvöld þar sem Leiknismenn jöfnuðu í uppbótartíma. Árangurinn er alls ekki búinn að vera nægilega góður og situr FH í níunda sæti með átta stig.

Ólafur er einn sigursælasti þjálfari í sögu Íslandsmótsins og náði hann frábærum árangri með FH frá 2003 til 2007. Þá stýrði hann liðinu þrisvar til Íslandsmeistaratitils og einu sinni bikarmeistaratitils. Hann var ráðinn aftur á miðju tímabili í fyrra þegar Logi Ólafsson var rekinn.

Sigurbjörn Hreiðarsson var svo ráðinn aðstoðarþjálfari hans eftir síðustu leiktíð. Þeir störfuðu saman hjá Val með stórgóðum árangri.

Rætt var um brottreksturinn í Innkastinu í gær. „Þeir þurftu að vinna í kvöld til að halda áfram í starfi,” sagði Sæbjörn Þór Steinke.

„Já, þeir hafa fengið þau skilaboð,” sagði Sverrir Mar Smárason.

Baldvin Borgarsson, sem er aðstoðarþjálfari Ægis, segir að tímasetningin sé furðuleg. „Ef þú horfir í töfluna þá er ekki hægt að segja að þetta komi á óvart, en tímapunkturinn er rosalega sérstakur. Ef þú ætlar að fara í svona stórar breytingar, viltu þá ekki nýta landsleikjahléið í það að nýr þjálfari geti komið sínum áherslum inn í liðið? Í staðinn fyrir að gera það núna þegar stutt er í næstu leiki.”

Stutt er síðan landsleikjahléið kláraðist, en FH tapaði fyrir KR í síðasta leik fyrir hlé. Samt var Óli áfram og svo er hann rekinn núna í fyrsta leik eftir hlé.

„Ég er 100 prósent sammála því. Ég hefði alltaf gefið Óla og Bjössa meiri tíma, sérstaklega af því í í stöðunni 2-1 (í gær) þá fær FH þrjú dauðafæri til þess að gera út um leikinn. Það er ekki undir þjálfaranum komið að klára þau færi. Hvernig skoraði Gummi Kri ekki? Það var auðveldara að skora en ekki. Ég hefði tekið það jákvæða úr þessum leik,” sagði Sverrir.

„Átta stig eftir níu leiki er samt ekki nægilega gott.”

Ólafur talaði um það seint á undirbúningstímabilinu að hann vildi fá 3-4 leikmenn til þess að stækka hópinn. Eftir það fékk hann tvo leikmenn sem eru báðir miðjumenn.

„Þetta er svekkjandi fyrir FH og ég held að þetta sé svekkjandi fyrir marga leikmenn þarna líka, að hafa ekki tekið þennan sigur. Ég held að Óli og Bjössi séu vinsælir þarna eins þeir eru og alls staðar. Ég held að margir hafi viljað halda áfram að vinna með þeim, en þeir fá ekki tækifæri til þess,” sagði Sverrir

„Óli Jó talaði um það fyrir mót að vilja fá 3-4 leikmenn og það er margoft búið að tala um þessa hafsentakrísu, að þeir séu að spila með miðjumenn í hafsentinum. Þeir hljóta að hafa barið í borðið nokkrum sinnum í vetur og fyrir mót að fá varnarmann. Ég trúi ekki öðru. Þeir hafa ekki fengið það fyrst staðan á varnarlínunni er þessi,” sagði Baldvin.

„Það hafa heyrst sögur um að stjórnarmenn í FH séu að sækja leikmennina, ekki endilega leikmenn sem þjálfararnir vildu fá,” sagði Sæbjörn Steinke.

Eiður Smári Guðjohnsen er talinn líklegastur til að taka við. „Ef að það er klárt„ þá finnst mér þetta ekki alveg jafn glórulalaust. Hvað annað ætla þeir að gera?” spurði Baldvin.

„Ég þarf að fara að sjá eitthvað langtímaplan hjá FH því það hefur bara ekki verið til staðar frá því Heimir Guðjóns fór,” sagði Sverrir.
Innkastið - Óli Jó rekinn og fyrsta tap Blika
Athugasemdir
banner
banner