banner
   fös 17. júní 2022 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Voru á sitthvoru torginu fyrir fimm árum - „Með stjörnur í augunum"
Icelandair
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Elísa Viðarsdóttir eru báðar í landsliðshópnum sem er að fara á EM í Englandi í næsta mánuði.

Áslaug Munda, sem er nýorðin 21 árs, er að fara á sitt fyrsta mót og Elísa er að fara á sitt annað mót. Þær voru báðar á EM í Hollandi fyrir fimm árum, en báðar sem stuðningsmenn liðsins. Núna eru þær í breyttu hlutverki eins og þær ræddu um í Heimavellinum.

„Ég fór til Hollands 2017 og vinkaði meira að segja íslensku stelpunum sem sátu í rútunni. Þær vinkuðu mér líka,” sagði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.

„Ég fór á tvo leiki í Hollandi, ég missti af fyrsta. Núna er spennandi að vera hinum megin við borðið.”

Var hún eitthvað að spá í að vera í þessari stöðu þegar hún var áhorfandi fyrir fimm árum?

„Nei, ekki þegar ég var að ganga yfir þessa gangbraut. Ég var nýkomin af Gothia Cup með 3. flokki Völsungs. Að sjálfsögðu er þetta alltaf markmið, en þetta gerðist allt svo hratt.”

„Ég sá Hörpu Þorsteins á einhverju torgi í Hollandi. Hún var að hitta fjölskylduna sína. Ég var með stjörnur í augunum. Ég vildi ekki trufla hana á meðan hún var með fjölskyldunni sinni… það er öllum velkomið að trufla mig í sumar,” sagði Áslaug Munda létt.

Elísa var með á EM 2013 en ekki fyrir fimm árum þar sem hún lenti í erfiðum meiðslum. „Ég var eins og Munda í Hollandi. Ég fór þrátt fyrir harmleikinn allan og var þar sem áhorfandi. Þar var þetta stórt…”

„Ég hitti þig og systur þína á torgi og þið voruð geggjað flottar að gefa fullt af stelpum áritanir og taka myndir og svona,” sagði Mist Rúnarsdóttir, sem stýrði þættinum.

„Þú hefðir átt að hitta okkur,” sagði Elísa við Mundu. „Ég fór á rangt torg.”

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni hér fyrir neðan.
Heimavöllurinn: Beint úr Bestu á EM í Englandi
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner