Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 17. júlí 2018 10:50
Elvar Geir Magnússon
Þrándheimi
Fyrsti leikur Matta eftir meiðslin gæti verið gegn Val
Matthías á æfingasvæðinu í dag.
Matthías á æfingasvæðinu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Líklegt er að Matthías Vilhjálmsson verði í leikmannahópnum hjá Rosenborg sem mætir Val á morgun í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Íslandsmeistararnir unnu fyrri leikinn gegn Noregsmeisturunum 1-0 í síðustu viku og fróðlegur leikur framundan.

Matthías sleit krossband í september í fyrra og var ekki í hópnum í fyrri leiknum gegn Val en er byrjaður að æfa á fullu. Fótbolti.net fylgdist með æfingu hjá Rosenborg í dag og þar var mikill kraftur í Matthíasi og hann virkaði tilbúinn í slaginn.

Rosenborg opinberar leikmannahópinn síðar í dag en Matthías vonast til að vera í honum og spila þá sinn fyrsta leik eftir meiðslin.

„Þetta er allt að koma. Þetta hefur verið mjög erfitt. Það er erfiður leikur á morgun og vonandi get ég tekið þátt í honum. Það kemur í ljós á eftir þegar við fáum að vita hópinn. Ég er allavega mjög spenntur og sé ljósið í endanum á göngunum," sagði Matthías við Fótbolta.net eftir æfinguna.

„Ég þarf að ræða við sjúkraþjálfarana og læknana og sjá hvað þeir segja. Þetta er mjög mikilvægur leikur á morgun. Valsmenn voru mjög góðir á Íslandi og við þurfum á öllu að halda. Ég tel sjálfur að ég sé klár en ég ræð þessu ekki."

Matthías segir að meiðslaferlið hafi verið erfitt.

„Þetta hefur verið ótrúlega erfitt, miklu erfiðara en ég hélt. En maður lærir helling af þessu."

Viðtalið við Matthías verður birt í heild sinni síðar í dag.
Athugasemdir
banner
banner