Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 17. júlí 2022 19:02
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KA gjörsigraði Leikni í Breiðholti
Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvö fyrir KA
Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvö fyrir KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Brynjar Hlöðversson var rekinn af velli
Brynjar Hlöðversson var rekinn af velli
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Leiknir R. 0 - 5 KA
0-1 Nökkvi Þeyr Þórisson ('23 )
0-2 Elfar Árni Aðalsteinsson ('25 )
0-3 Ásgeir Sigurgeirsson ('57 )
0-4 Nökkvi Þeyr Þórisson ('59 )
0-5 Sveinn Margeir Hauksson ('61 )
Rautt spjald: Brynjar Hlöðversson , Leiknir R. ('83) Lestu um leikinn

Leiknismenn fengu slæma útreið í Breiðholti er KA heimsótti liðið á Domusnovavöllinn en leiknum lauk með 5-0 stórsigri KA, sem er í þriðja sæti deildarinnar.

Það var ljóst að Akureyringar voru í árásargír og ætluðu sér sigurinn en liðið óð í færum í fyrri hálfleik. Daníel Hafsteinsson átti fyrst skot í hliðarnetið áður en Viktor Freyr Sigurðsson varði vel frá Nökkva Þey Þórissyni stuttu síðar.

Á 23. mínútu kom fyrsta mark leiksins og í þetta sinn hafði Nökkvi betur gegn Viktori. Ásgeir Sigurgeirsson átti sendingu inn á Nökkva sem kláraði í nærhornið. Elfar Árni Aðalsteinsson bætti við öðru tveimur mínútum síðar eftir glæsilegt spil. Boltinn endaði hjá Hrannari Birni Steingrímssyni sem kom með fyrirgjöf á kollinn á Elfari og þaðan í netið.

KA-menn hefðu hæglega getað gengið frá þessum leik í fyrri hálfleiknum en þeir sáu til þess að nýta færin betur í þeim síðari.

Ásgeir skoraði á 57. mínútu eftir frábæra sendingu frá Hrannari á milli varnar og markmanns og hélt veislan áfram er Nökkvi gerði annað mark sitt tveimur mínútum síðar er hann lét vaða með vinstri í fjærhornið.

Sveinn Margeir Hauksson hamraði járnið meðan það var heitt og gerði fimmta markið á 61. mínútu og gekk gjörsamlega frá leiknum með stórglæsilegu marki. Hann hljóp up allan völlinn, sólaði tvo eða þrjá Leiknismenn áður en hann skoraði. Sturlað mark.

Leiknismenn sýndu mikla baráttu seinni hluta síðari hálfleiksins og áttu nokkur góð færi. Mikkel Dahl átti besta færið en Kristijan Jajalo varði frábærlega frá honum.

Brynjar Hlöðversson lét reka sig af velli á 83. mínútu í liði Leiknis er hann fékk sitt annað gula spjald fyrir að rífa Jakob Snæ Árnason fyrir framan teiginn og því sendur í sturtu.

Sigur KA hefði getað orðið töluvert sætti ef það hefði ekki verið fyrir Viktor í marki heimamanna. Sigurinn samt sem áður risastór og KA í 3. sæti með 24 stig en Leiknir, sem hafði unnið tvo leiki í röð fram að þessum leik, er í 10. sæti með 10 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner