fös 17. ágúst 2018 10:15
Elvar Geir Magnússon
Gus Poyet lét eigendur Bordeaux heyra það og var rekinn
Poyet er frá Úrúgvæ.
Poyet er frá Úrúgvæ.
Mynd: Getty Images
Gus Poyet var rekinn frá Bordeaux í morgun. Poyet lét eigendur félagsins heyra það í gær, nokkrum klukkutímum fyrir leik gegn FC Marioupoul í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Einn af leikmönnum Bordeaux var seldur án þess að Poyet hafði vitneskju um það.

Bordeaux komst áfram í umspil Evrópudeildarinnar en Poyet, sem er fyrrum stjóri Brighton og Sunderland, var brjálaður yfir því að sóknarmaðurinn Gaetan Laborde hafði verið seldur til Montpellier.

Hann segist hafa komist að sölunni þegar leikmannahópurinn hittist að morgni leikdags og hafi hótað að segja upp fyrir leikinn.

„Nei ég er ekki ánægður. Þetta er einn versti dagur minn hjá félaginu. Það sem félagið hefur gert með Gaetan Laborde er til skammar. Það þarf að segja stopp. Ég var búinn að segja félaginu að selja hann ekki nema við værum komnir með mann í hans stað. Eigendurnir hafa ekki bætt við sig manni og Laborde fór. Ég mætti 11:35 á leikdegi til að hitta hópinn og Laborde var ekki þar. Hann var í Montpellier. Enginn sagði mér eitt né neitt," sagði Poyet í gær.

„Ég þarf að ræða við umboðsmann minn og taka ákvörðun í kjölfarið. Ég veit ekki hvernig þetta mun enda. Hef ég þrá til að starfa áfram í þessu umhverfi? Nei. Eigendurnir hafa farið á móti mér, á móti leikmönnum og á móti stuðningsmönnum."

Bordeaux tapaði fyrir Strasbourg í fyrstu umferð frönsku deildarinnar um síðustu helgi.

Síðan Poyet yfirgaf Sunderland 2015 hefur Poyet stýrt AEK Aþenu, Real Betis og Shanghai Shenhua áður en hann fór til Frakklands í janúar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner