Næstu þrír leikir ráða framtíð Amorim - Glasner, Southgate, Silva og Iraola orðaðir við Man Utd - Liverpool horfir til Araujo
   mið 17. september 2025 21:29
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Tvær endurkomur og mikil dramatík í Kórnum
HK-ingar fara með forystu í Laugardalinn
HK-ingar fara með forystu í Laugardalinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karl Ágúst skoraði tvö mörk á síðustu tuttugu mínútunum
Karl Ágúst skoraði tvö mörk á síðustu tuttugu mínútunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK 4 - 3 Þróttur R.
1-0 Eiríkur Þorsteinsson Blöndal ('51 , sjálfsmark)
2-0 Bart Kooistra ('55 )
2-1 Viktor Andri Hafþórsson ('58 , víti)
2-2 Brynjar Gautur Harðarson ('62 )
2-3 Liam Daði Jeffs ('68 )
3-3 Karl Ágúst Karlsson ('73 )
4-3 Karl Ágúst Karlsson ('91 )
Lestu um leikinn

HK vann ótrúlegan 4-3 sigur á Þrótti í fyrri leik liðanna í undanúrslitum umspilsins í Lengjudeild karla í Kórnum í kvöld og fara HK-ingar því með eins marks forystu í Laugardalinn um helgina.

Nóg var um að vera í fyrri hálfleiknum. Skjálfti var í liðunum í byrjun leiks enda mikið undir, en HK-ingar aðeins með yfirhöndina þegar það kom að því að skapa færi.

Staðan engu að síður markalaus þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, en það átti heldur betur eftir að breytast í þeim síðari.

Eiríkur Þorsteinsson Blöndal, leikmaður Þróttar, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir klaufagang í vörninni. Þróttarar voru að spila úr vörninni er Tumi Þorvarsson kom inn í boltann og framhjá Þórhalli í markinu. Hann ætlaði að koma boltanum á Dag Inga Axelsson áður en Eiríkur mætti og setti boltann óvart í eigið net.

Bart Kooistra tvöfaldaði forystu HK aðeins fjórum mínútum síðar. Hann setti boltann á markið og á Þórhall sem missti boltann í netið. Engin draumabyrjun á síðari hálfleiknum hjá Þrótturum.

Tveimur mínútum síðar fengu gestirnir vonarneista er Þorsteinn Aron Antonsson braut á Baldri Hannesi Stefánssyni í vítateignum og skoraði Viktor Andri Hafþórsson úr vítinu.

Þróttarar hömruðu járnið meðan það var heitt. Brynjar Gautur Harðarson jafnaði metin með laglegu skoti í fjærhornið og sex mínútum síðar fullkomnaði Liam Daði Jeffs endurkomuna er hann hirti frákast í teignum.

Staðan 3-2 fyrir Þrótturum þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir en HK-ingar voru einnig með endurkomu í vopnabúri sínu.

Jóhann Þór Arnarsson átti skot sem Þórhallur missti út í teiginn og á Karl Ágúst Karlsson sem jafnaði og í uppbótartíma tryggði Karl sigurinn í einhverjum ótrúlegasta leik sumarsins.

Langur bolti kom fram völlinn á Karl sem náði að pota honum framhjá Þórhalli og tryggja sigur.

Svakalegur leikur með tvær endurkomur og alvöru dramatík. Það er því við miklu að búast þegar liðin mætast öðru sinni á AVIS-vellinum í Laugardal á sunnudag, en sigurvegarinn mætir annað hvort Keflavík eða Njarðvík í úrslitum um sæti í Bestu deildina.
Athugasemdir