Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 17. nóvember 2021 23:06
Brynjar Ingi Erluson
„Algerlega glórulaust miðað við hvernig ferillinn fór af stað"
Birkir Már Sævarsson
Birkir Már Sævarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir spilaði fyrstu landsleikina á kantinum
Birkir spilaði fyrstu landsleikina á kantinum
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Birkir Már Sævarsson spilaði 103 landsleiki á landsliðsferli sínum og er þriðji leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi. Hann segir það í raun ótrúlegt að þetta hafi tekist miðað við hvernig ferillinn fór af stað.

Birkir lagði landsliðsskóna á hilluna eftir síðasta landsleik í undankeppni HM þar sem Ísland tapaði fyrir Norður-Makedóníu, 3-1.

Það var 103. landsleikur hans en í sama landsleik sló Birkir Bjarnason leikjametið og lék sinn 105. landsleik.

Ferillinn fór hægt af stað hjá Birki Má en hann fór yfir það hvernig hann varð að hægri bakverði.

„Ekkert fyrirfram en núna er hún helvíti stór. Magnað að hafa náð þessum leikjafjölda í rauninni og algerlega glórulaust miðað við hvernig ferillinn fór af stað. Ég hefði aldrei séð það fyrir að spila svona marga landsleiki."

„Mér finnst þetta alveg fáránlegt. Ég var þokkalegur á yngri árum en ferillinn fór ekki á flug fyrr en ég var 22 ára. Flestir eru byrjaðir að spila fast miklu fyrr en það, alla vega af þessum gaurum í landsliðinu. Fáránlegt að ég hafi náð þessu,"
sagði Birkir um landsleikina í viðtali við Sæbjörn Steinke í dag.

Hann segist ekkert hafa pælt í landsleikjametinu fyrr en hann var kominn yfir hundrað leiki en vissi hins vegar að nafni hans myndi hafa betur í kapphlaupinu.

„Maður pældi alveg í þessu þegar þetta fór að nálgast. Fyrst langaði mig bara að ná hundrað leikjum og var sama um metið og langaði bara að ná þessari þriggja stafa tölu og þegar það var komið hugsaði ég alveg um metið en ég vissi að Birkir væri á sama fjölda og væri að fara að spila í ár í viðbót. Þannig það skipti engu máli ef ég myndi slá metið núna þá myndi hann rúlla yfir það hvort sem er."

„Ef ég hefði verið einn sem hefði getað náð metinu þá og hefði þá reynt að taka nokkra leiki til að ná metinu en fyrir mér skiptir þetta voðalega litlu máli."


Þoldi ekki þegar hann setti mig í bakvörðinn

Hann byrjaði sem kantmaður og framherji og spilaði þær stöður framan af eða til 2006 er Willum Þór Þórsson gerði hann að bakverði hjá Val.

„Nei, ég var kantmaður og framherji langt fram í meistaraflokk. Það var ekki fyrr en 2006 sem ég var hægri bakvörður þá meiddist Seinþór Gísla sem var hægri bakvörður og ég var settur í bakvörðinn í Reykjavíkurmóti eða Lengjubikar og fór ekki eftir það."

„Í fyrstu deildinni árið 2004 var ég eitthvað í bakverðinum en annars á kantinum og Willum henti mér stundum fram í undirbúningsleikjum þegar okkur vantaði mark. Ég þoldi ekki þegar hann setti mig í bakvörðinn í fyrst en ég held eftir því sem ég spilaði þá sá ég að þetta væri kannski staða sem myndi henta mér vel."

Komið að mér að grípa þessa stöðu

Þegar Birkir kom inn í landsliðið var Grétar Rafn Steinsson hægri bakvörður Íslands. Grétar var búinn að vera frábær með bæði AZ Alkmaar og Bolton Wanderers svo í ensku úrvalsdeildinni og var Birkir hugsaður sem varnarsinnaður kantmaður en greip svo stöðuna þegar Grétar hætti.

„Þetta var aldrei nein samkeppni þannig séð. Hann var að spila í Premier League og miklu betri leikmaður. Ég var settur á kantinn og vorum ekki að ná í úrslit og það var ekki komið þetta hugarfar að við gátum unnið eitthvað."

„Ég var settur á kantinn til að vera svona annar hægri bakvörður en ég var ekkert kantmaður á þessu leveli. Ég gat spilað þetta í Lengjubikarnum með Val en að vera á kantinum í landsliðinu var ekki mín uppáhaldsstaða. Þannig ég var að aðstoða í varnarleiknum mest og ég var backup fyrir Grétar. Því miður fyrir hann þurfti hann að hætta vegna meiðsla og þá var komið að mér að reyna að grípa þessa stöðu,"
sagði hann ennfremur.
Birkir Már - Farið yfir ferilinn með Vindinum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner