Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 17. nóvember 2021 09:30
Elvar Geir Magnússon
Gamlir landsliðsfélagar fara í taugarnar á Solbakken
Stale Solbakken.
Stale Solbakken.
Mynd: EPA
Steven Bergwijn fagnar marki sínu gegn Noregi í gær.
Steven Bergwijn fagnar marki sínu gegn Noregi í gær.
Mynd: EPA
Þau voru þung skrefin hjá Stale Solbakken, landsliðsþjálfara Noregs, upp í liðsrútuna eftir 2-0 tap gegn Hollandi í gær. Norska liðið skapaði sér varla færi í leiknum og úrslitin gera það að verkum að Noregur á ekki möguleika lengur á að vera með á HM í Katar.

Það eru margir mánuðir í að Noregur spilar næst alvöru keppnisleik og Solbakken hefur talað um að hann eigi erfitt með að venjast landsliðsumhverfinu. Hjá félagsliði er alltaf stutt í næsta leik og möguleiki á að svara strax eftir tapleiki.

„Þetta er hræðilegt. Það verður örugglega erfitt að umgangast mig næstu sex mánuði. Ég verð erfiður maður," sagði Solbakken eftir leikinn í gær.

Norðmenn eru orðnir vanir því að sitja heima á stórmótum, síðasta mót sem þeir komust á var 2000.

Sjá einnig:
Eyðimerkurganga Noregs heldur áfram

Solbakken hefur fengið gagnrýni í fjölmiðlum þó flestir sparkspekingar Noregs séu á því að liðið sé einfaldlega ekki nægilega gott og verðskuldi ekki sæti á HM.

„Margir eru sanngjarnir en þeir sem horfa ekki raunsætt á hlutina eru oft leikmenn sem spiluðu með landsliðinu á tíunda áratugnum. Þeir sem telja sig hafa verið betri en aðrir. Þeirra álit hefur oft áhrif á almenningsálitið en ég tel að flestir norskir blaðamenn horfi raunhæft á þetta," segir Solbakken.

Sjálfur spilaði Solbakken með landsliðinu á tíunda áratugnum og greinilegt að gamlir liðsfélagar sem hafa verið að tjá sig í fjölmiðlum fara í taugarnar á honum.

Hann nafngreinir engan en Kjetil Rekdal, fyrrum landsliðsmaður, hefur verið áberandi í umræðunni í kringum landsliðið sem sérfræðingur VG. Rekdal segir erfitt að lesa í hvað Solbakken sé nákvæmlega að tala um.

„Fótbolti hefur þróast á gríðarlega miklum hraða. Ég tengist landsliðinu ekki neitt í dag en ég reyni bara að gefa mynd af því sem ég sé. Það sem mér finnst gott og það sem mér finnst slæmt. Ég ber miklar taugar til landsliðsins. Þetta hafa verið 20 ár af vonbrigðum, hver vonbrigðin á fætur öðrum," segir Rekdal.
Athugasemdir
banner
banner
banner