Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 17. nóvember 2021 20:30
Brynjar Ingi Erluson
„Hef engar áhyggjur af bakvarðarstöðunni næstu fimmtán árin"
Birkir Már Sævarsson
Birkir Már Sævarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted er klár í að taka við stöðunni
Alfons Sampsted er klár í að taka við stöðunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson, leikmaður Vals, lagði landsliðsskóna á hilluna eftir 3-1 tapið gegn Norður-Makedóníu í síðasta leik í undankeppni HM en hann ræddi við Sæbjörn Steinke í dag og fór yfir ferilinn.

Birkir spilaði 103 landsleiki fyrir Ísland þar sem hann fór á tvö stórmót. Hann var partur af ósnertanlegri fjögurra manna varnarlínu ásamt Kára Árnasyni, Ragnari Sigurðssyni og Ara Frey Skúlasyni.

Nú hefur hann ákveðið að kalla þetta gott en hann segist ekki hafa neinar áhyggjur af hægri bakvarðarstöðunni.

Alfons Sampsted er maðurinn til að taka við stöðunni. Blikinn hefur spilað frábærlega með norska meistaraliðinu Bodö/Glimt síðustu tvö ár og hefur fengið tækifærið í síðustu leikjum landsliðsins.

„Ég er mikill Alfons-aðdáandi. Mér finnst hann frábær og hef fylgst með honum í norsku deildinni og spilaði svo á móti honum í sumar, þannig hef fengið bæði. Ég hef engar áhyggjur af þessari hægri bakvarðarstöðu næstu fimmtán árin," sagði Birkir.

„Ég held að við séum í góðum málum. Hann á vonandi eftir að spila fleiri leiki en ég. Svo erum við með unga stráka sem vonandi bakka hann upp og gera tilkall. Ég tel mig því geta gengið frá þessu nokkuð áhyggjulaus."

„Það er mjög þægilegt af því þá líður manni ekki eins og maður sé að hoppa frá og einhver settur þarna og allt fer til fjandans. Ég held að Alfons eigi eftir að leysa þessa stöðu vel næstu fimmán árin."

„Við höfum talað mikið saman, bæði í kringum þessa Evrópuleiki í sumar og inn á milli á samfélagsmiðlum. Við sitjum saman í klefanum fyrir leiki og talað töluvert mikið saman. Alfons er mjög flottur gaur, ekki bara góður í fótbolta heldur með hausinn rétt skrúfaðan á, sem er mikilvægt fyrir alla fótboltamenn, en sérstaklega unga stráka sem eru að stíga sín fyrstu skref í landsliðinu."


Nógu góður til að fara í sterkari deild

Birkir segir að Alfons sé á mjög góðum stað á ferlinum og að hann sé klár í að spila í sterkari deild.

„Hann er á mjög góðum stað á ferlinum. Ég held að hann sé ekkert að stressa sig en hann er búinn að spila tvö mjög góð tímabil hjá Bodö og það er örugglega að koma tími að hann taki næsta skref þó þetta lið sem hann er í sé frábært. Hann er alla vega nógu góður til að fara í sterkari deild, tel ég, en vonandi sjáum við hann fara sem hæst og það yrði frábært fyrir landsliðið ef hann væri að spila í enn betri deild en norsku deildinni," sagði hann um Alfons.
Birkir Már - Farið yfir ferilinn með Vindinum
Athugasemdir
banner
banner
banner