mán 17. desember 2018 20:39
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho ekki sektaður eftir sigurinn gegn Newcastle
Mynd: Getty Images
Enska knattspyrnusambandið hefur samþykkt ákvörðun óháðrar úrskurðarnefndar og mun ekki refsa Jose Mourinho fyrir að blóta í myndavélar á portúgölsku eftir magnaða endurkomu Manchester United gegn Newcastle í byrjun október.

Newcastle komst tveimur mörkum yfir snemma í leiknum sem var spilaður á Old Trafford. Heimamenn minnkuðu muninn þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, jöfnuðu sjö mínútum síðar og gerði Alexis Sanchez sigurmark á lokamínútunum.

Mourinho hafði hlustað á níðsöngva um sig yfir hluta leiksins og nýtti tækifærið eftir endurkomuna til að svara fyrir sig.

Enska knattspyrnusambandið kærði hann fyrir athæfið en úrskurðarnefndin sýknaði hann og áfrýjaði knattspyrnusambandið málinu skömmu síðar.

Síðan þá hafa tvær aðrar óháðar úrskurðarnefndir verið kallaðar til vegna málsins en nú hefur fengist endanlega staðfest að Mourinho þarf ekki að sæta neinni refsingu, rúmlega tveimur mánuðum eftir atvikið.

Knattspyrnusambandið gaf út yfirlýsingu þar sem það segist ekki vera sammála úrskurðinum en sætti sig þó við hann.

„Við munum halda áfram að berjast gegn því að fúkyrðum sé hreytt í átt að myndavélum," segir meðal annars í yfirlýsingu frá knattspyrnusambandinu.

Mourinho á að hafa sagt „farið í rassgat tíkarsynir" en var sýknaður á tækniatriði.

Athugasemdir
banner
banner
banner