
Franski framherjinn Karim Benzema hefur hafnað boði Emmanuel Macron, forseta Frakklands, um að ferðast með honum til Katar til að vera viðstaddir úrslitaleik heimsmeistaramótsins milli Frakklands og Argentínu. Þetta segir Le Parisien.
Benzema meiddist stuttu fyrir heimsmeistaramótið en það var ákvörðun Didier Deschamps, þjálfara landsliðsins, að senda Benzema heim og láta hann ná sér af meiðslunum.
Enginn kom inn í hópinn í stað Benzema og hefur franska liðið náð ótrúlegum árangri án margra lykilmanna frá síðasta móti.
Eftir að Frakkar tryggðu sig í úrslitaleikinn voru vangaveltur um það hvort Benzema myndi snúa aftur til Katar, annað hvort sem áhorfandi eða í hópnum í úrslitaleiknum, en það mun ekki gerast.
Le Parisien segir frá því að Benzema hafi hafnað boði um að ferðast með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, til Katar og horfa á leikinn með honum úr stúkunni. Paul Pogba, Ngolo Kanté og Christopher Nkunku tóku boðinu á meðan Laurent Blanc, Zinedine Zidane og Michael Platini höfnuðu boðinu líkt og Benzema.
Benzema segist ekki hafa áhuga á því að koma aftur og tala franskir fjölmiðlar um mögulegt ósætti milli hans og Deschamps.
Athugasemdir