lau 17. desember 2022 23:13
Ívan Guðjón Baldursson
Myndband: Réðust á markvörðinn í slagnum um Melbourne
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Melbourne City og Melbourne Victory mættust í efstu deild ástralska boltans og þurfti að hætta leik eftir aðeins 22 mínútur.


Melbourne City var þegar komið einu marki yfir þegar stuðningsmenn Victory köstuðu blysum í átt að Tom Glover, markverði City.

Eitt blysið lenti fyrir framan markið og truflaði reykurinn leikinn. Glover tók uppá því að skila blysinu aftur til 'ultras' stuðningsmanna Victory. Glover kastaði blysinu aftur upp í stúku og tóku áhorfendur illa í það, enda skapaði hann óþarfa hættu með þessu uppátæki. Ultras stuðningsmenn Victory ruddu sér samstundis leið inn á völlinn þar sem þeir réðust að Glover og tókst að meiða hann.

Þeir köstuðu járnfötu, sem er geymd við hliðarlínuna til að safna notuðum blysum, í andlitið á Glover en fatan hæfði einnig Alex King dómara leiksins sem reyndi að vernda markvörðinn frá árás áhorfendanna. Glover og King eru báðir með sár á andlitinu eftir atvikið og fékk Glover nokkur spor áður en farið var með hann í skoðun á sjúkrahúsi.

Allar líkur eru á því að City fái sigur dæmdan eftir þetta atvik og andstæðingarnir í Victory verði sektaðir. Sjónvarpstökumaður særðist einnig á leiknum eftir að hafa fengið blys í sig.

Lætin voru til að mótmæla ákvörðun áströlsku deildarinnar að selja úrslitakeppnina til Sydney næstu þrjú árin. Stuðningsmenn beggja liða köstuðu blysum á völlinn og höfðu ákveðið í sameiningu að ganga af velli 20 mínútum fyrir leikslok í mótmælaskyni. Það þurfti þó ekki að grípa til þess.


Athugasemdir
banner
banner