Fallbaráttulið Sampdoria er að missa einn besta leikmann liðsins, Bartosz Bereszynski, til toppliðs Napoli, en þessu greinir Fabrizio Romano frá á samfélagsmiðlum.
Sampdoria hefur verið í miklum vandræðum á þessari leiktíð og aðeins unnið einn leik.
Bereszynski, sem er þrítugur landsliðsmaður Póllands, er einn af ljósu punktunum í liði Sampdoria, en hann spilaði einnig alla fjóra leiki Póllands á HM í Katar.
Hann er nú á leið til toppliðs Napoli en Sampdoria fær tvo leikmenn í skiptum.
Ítalski hægri bakvörðurinn Alessandro Zanoli fer þangað en sá er 22 ára gamall. Úkraínski markvörðurinn Nikita Contini mun þá gera skipti sín til Sampdoria varanleg, en hann hefur verið á láni hjá félaginu frá Napoli á þessari leiktíð.
Sampdoria er í 19. sæti ítölsku deildarinnar með 6 stig.
Athugasemdir