Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 18. janúar 2019 09:16
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Horfir til betri vegar hjá Bödda í Póllandi
Icelandair
Böðvar á æfingu í Katar.
Böðvar á æfingu í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Fyrir landsleikinn gegn Svíþjóð í síðustu viku.
Fyrir landsleikinn gegn Svíþjóð í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Hafnfirðingurinn Böðvar Böðvarsson var meðal leikmanna sem voru í æfingabúðum íslenska landsliðsins í Katar. Þessi 23 ára vinstri bakvörður lék sinn fimmta landsleik þegar hann spilaði í 2-2 jafnteflinu gegn Svíþjóð fyrir viku síðan.

Böðvar gekk í raðir pólska úrvalsdeildarliðsins Jagiellonia Bialystok fyrir um ári síðan en hann braut þá blað með því að verða fyrsti íslenski fótboltamaðurinn til að ganga til liðs við pólskt félag.

Hann hefur komið við sögu í fjórum leikjum í pólsku úrvalsdeildinni, þar sem Jagiellonia situr í fjórða sæti, og leikið í þremur bikarleikjum. Spiltíminn hefur verið undir væntingum og bekkjarsetan mikil en það er þó að birta til.

Líkar mjög vel við borgina
Fótbolti.net fékk sér sæti með Böðvari í Katar og byrjaði á því að spyrja hann hvernig það væri að vera fótboltamaður í Póllandi, eðlileg spurning enda aðeins tveir Íslendingar sem hafa kynnst því.

„Ég varð fyrstur og svo kom Árni Vill fljótlega eftir það í næst efstu deild. Ég hef fengið að vera meiri fótboltamaður síðustu tvo mánuði, það hefur verið flott. Mér líkar mjög vel við borgina, liðið og deildina. Ég hef það fínt þarna en spiltíminn hefur verið undir væntingum. Miðað við síðustu mánuði hefur þó horft til betri vegar," segir Böðvar.

„Ég fékk loksins að spila nokkra leiki í röð. Ég fékk að byrja leiki og spilaði þrjá leiki í desember. Það er strax betra að fá að taka þátt eitthvað í deildinni en að spila einn leik í mánuði gegn neðri deildarliðum í bikarnum."

Skellur að vera tekinn af velli í hálfleik
Böðvar er ánægður með hvernig honum hefur gengið þegar hann hefur fengið að spila.

„Það hefur gengið vel. Við höfum ekki tapað neinum af þessum deildarleikjum sem ég hef spilað, gerðum eitt jafntefli. Við erum svo komnir í 8-liða úrslit í bikarnum þar sem ég hef spilað alla leiki," segir Böðvar.

„Ég var reyndar tekinn af velli í hálfleik einu sinni í byrjun tímabilsins! Við vorum að vinna 1-0 og að mínu mati hafði ég ekki átt slæman leik. Það var ákveðinn skellur. Þjálfarinn kenndi mér um vítaspyrnu sem við fengum á okkur, sem var hendi á annan leikmann. Ég fékk ekki að spila mikið eftir það. Það var mjög þreytt en ég vissi að ég fengi aftur tækifæri á endanum og nú hefur gengið vel."

„Ég á tvö og hálft ár eftir af samningnum. Þegar ég kom til félagsins í febrúar í fyrra fékk ég þau skilaboð frá þjálfaranum að ég væri ekki að fara að spila mikið fram að sumri. Hann ætlaði að halda sig við liðið eins og það var. Ég var búinn að skrifa undir og lítið sem ég gat gert í því!"

„Eftir tímabilið voru svo einhver lið að reyna að kaupa hinn vinstri bakvörðinn sem er Brasilíumaður. Það gekk ekki upp. Þjálfarinn sagði þá við mig að það væri möguleika að ég yrði lánaður ef ég myndi ekki spila mikið fram að áramótum. Þeir vildu svo ekki lána mig og ég reyni að horfa á það jákvætt, þá hafa þeir væntanlega trú á manni. Þeir eru mjög hreinskilnir með það ef þeir vilja losa sig við leikmenn, það eru fimm leikmenn á sölulista núna. Það eru hreingerningar á liðinu og góðir leikmenn sem eru að fara frá okkur," segir Böðvar.

Get spilað í þessari deild
Böðvar er bjartsýnn á að hann eigi framtíð hjá Jagiellonia, í ljósi þess að það hefur verið uppgangur hvað varðar stöðu hans.

„Ég hef fulla trú á því að ég geti spilað í þessari deild og það er nægur tími fyrir mig til að sanna það."

Hvernig er lífið utan vallar, í borginni Bialystok?

„Lífið er mjög fínt. Eins og ég segi þá 'fíla' ég borgina og lífið er mjög þægilegt. Það búa 300 þúsund manns þarna sem er lítið á pólskan mælikvarða en það er mjög fínt fyrir mig. Það er fínn miðbær þarna. Ég bý í ágætis íbúð og er með nokkra liðsfélaga í blokkinni. Annars er maður duglegur að hringja heim í Flóka og félaga, spila tölvuleiki og horfa á Netflix. Ég þarf ekki meira," segir Böðvar sem er einnig að skoða möguleika á að taka fjarnám.

Umboðsmaður Böðvars heitir Cesare Marchetti og hann er í stöðugu sambandi við hann.

„Það er algjör toppmaður. Hann er hálfur Ítali og er fljótur upp í skapinu en er algjör toppmaður. Hann hjálpaði mér mikið að koma mér út, frá FH, sem mér fannst tímapunktur á. Hann hefur komið 6-7 sinnum til mín út í heimsókn í nokkra daga. Ég kynntist honum í gegnum Steven Lennon sem er vinur hans. Ég er mjög sáttur að vera hjá honum."

Stefnir á að komast nær landsliðshópnum
Ef Böðvar nær að festa byrjunarliðssæti hjá Jagiellonia Bialystok, telur hann þá möguleika á að verða reglulega í landsliðshópum Íslands?

„Hörður Björgvin og Ari Freyr eru í hverjum einasta hóp sem vinstri bakverðir. En þetta er alveg klúbbur fyrir mig til að koma mér nær landsliðinu. Þetta er sterk deild og mikið í kringum hana. Ég er í góðu liði í toppbaráttu og ef ég er að spila þar eykur það væntanlega möguleika mína," segir Böðvar.

„Ég tel að ef ég fari frá félaginu þurfi ég að lækka mig niður um 'level'. Ef ég fæ meiri spiltíma hjá þessu liði þá tel ég mig að minnsta kosti komast nær landsliðshópnum."

FH er uppeldisfélag Bödda en Hafnarfjarðarliðið var í basli á síðasta tímabili og tókst ekki að landa Evrópusæti. Hvernig hefur verið að fylgjast með liðinu að utan?

„Ég sá meirihluta leikjanna á síðasta tímabili, einhverja 15 leiki. Þetta var ekki nægilega gott. Það var mjög leiðinlegt eftir öll þessi ár í Evrópukeppni að ná ekki þangað. Það var mikill skellur. En Björn Daníel (Sverrisson) er kominn og þá þurfum við bara 'striker' og við erum góðir held ég," segir Böðvar.

„Þá ættum við að geta veitt Val, sem er með besta og breiðasta hópinn núna, samkeppni um titilinn. Ég veit ekki hvort FH muni taka titilinn á þessu tímabili en það verður allavega 100% Evrópusæti."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner