Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 18. janúar 2019 17:59
Elvar Geir Magnússon
Rosaleg ólga og reiði hjá West Ham vegna Arnautovic
Marko Arnautovic.
Marko Arnautovic.
Mynd: Getty Images
Mikil ólga ríkir hjá West Ham vegna hegðunar Marko Arnautovic í kjölfar þess að félagið hafnaði tilboði í hann frá Guangzhou Evergrande í Kína.

Forráðamenn West Ham eru reiðir út í Austurríkismanninn en hann verður ekki í leikmannahópnum sem mætir Bournemouth um helgina.

Manuel Pellegrini, stjóri West Ham, segir að Arnautovic sé ekki með hausinn rétt stilltan til að spila og er að velta því fyrir sér hvort rétt sé að selja þennan 29 ára sóknarleikmann.

Pellegrini telur að löngun Arnautovic til að fara í kínverska boltann hafi truflað einbeitingu hans. Austurríkismaðurinn bað liðsfélaga sína afsökunar á hegðun sinni á æfingu í dag.

Heimildarmaður Guardian innan herbúða West Ham telur helmingslíkur á því að Arnautovic verði áfram.

Arnautovic hefur ekki farið leynt með löngun sína til að fara til Kína en West Ham hafnaði 35 milljóna punda tilboði í hann. Félagið vill ekki selja Arnautovic nema það geti fengið mann til að fylla hans skarð.

Peningarnir tala hjá Arnautovic en hann fengi miklu hærri laun í Kína en hann fær hjá West Ham, þar sem hann er með 90 þúsund pund í vikulaun.

Arnautovic virtist kveðja stuðningsmenn eftir að hann var tekinn af velli í sigurleik gegn Arsenal fyrir viku síðan.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner