Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 18. janúar 2023 11:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Æfði í tæpan mánuð hjá liði í Championship - „Í mínum augum var þetta tímaspursmál"
Á sprettinum, eins og svo oft á síðasta tímabili.
Á sprettinum, eins og svo oft á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
 Dugnaðurinn, viljinn og liðsmaðurinn var þarna en svo með sjálfstraustinu gat hann sýnt hluti í leikjum sem hann sýndi á hverri æfingu
Dugnaðurinn, viljinn og liðsmaðurinn var þarna en svo með sjálfstraustinu gat hann sýnt hluti í leikjum sem hann sýndi á hverri æfingu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Jón og Arnar Breki voru alltaf að í fremstu víglínu.
Halldór Jón og Arnar Breki voru alltaf að í fremstu víglínu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Breki Gunnarsson er einn af þeim leikmönnum sem komu undirrituðum hvað mest á óvart á síðasta tímabili, fyrir flestum nýtt nafn í íslenskum fótbolta. Arnar var í byrjunarliði ÍBV gegn Val í fyrsta leik tímabilsins og átti heldur betur eftir að eiga gott sumar.

Arnar varð tvítugur í fyrra og var að spila sitt fyrsta tímabil í efstu deild. Sumarið 2021 lék hann með KFS í 3. deild og skoraði þrjú mörk í nítján leikjum. Á liðinni leiktíð skoraði hann fjögur mörk í 23 leikjum og lagði upp fimm, var sextán sinnum í byrjunarliðinu og kom sjö sinnum inn á sem varamaður.

Hann er kallaður Tasmaníudjöfullinn í Eyjum.

Í nóvember var hann svo valinn í U21 landsliðið og lék sinn fyrsta leik fyrir yngri landsliðin. Í kjölfarið æfði hann hjá Bristol City sem spilar í Championship deildinni, var á Englandi í tæpan mánuð. Hermann Hreiðarsson, þjálfari Arnars Breka hjá ÍBV, var spurður út í sinn mann. Hemmi þekkir eitthvað til hjá Bristol og því varð úr að Arnar Breki færi þangað.

„Hann átti frábært tímabil og við stefndum á það að hann myndi fara að æfa í alvöru atvinnumannaumhverfi í smá tíma. Þeim leist mjög vel á hann og munu fylgjast með honum. Hann stóð sig rosalega vel og þeir voru rosalega ánægðir með hann. Hann var meira og minna með U23 liðinu, þetta var aðallega fyrir hann til að sjá hvar hann stæði gagnvart leikmönnum á hans aldri."

Hemmi hefur talað um að lykillinn að breyttu gengi ÍBV á síðasta tímabili hafi verið ákveðnar mannabreytingar. Eftir að hafa byrjað fyrsta leik byrjaði Arnar Breki ekki aftur fyrr en í júlí og lagði þá upp mark gegn KA. Í næsta leik þar á eftir byrjaði hann í fyrsta sigri ÍBV á tímabilinu þegar Valur kom í heimsókn til Eyja. Í kjölfarið byrjaði Arnar alla þá leiki sem í boði voru, missti út einn leik vegna leikbanns, en spilaði annars alltaf og alltaf 85 mínútur eða meira. Hafði innkoma Arnars Breka inn í liðið mikil áhrif?

„Hann og Halldór Jón (Sigurður Þórðarson) höfðu mjög mikil og góð áhrif. Halldór Jón var meiddur eiginlega allan veturinn og þurfti að koma sér í leikform. Arnar Breki var að spila í 3. deild árið áður og þurfti að kynnast hraðanum, fá reynslu í fyrstu leikjunum í efstu deild. Það var ljóst að þetta myndi taka tíma hjá þeim en þeir höfðu svakalega sterk áhrif þegar þeir voru komnir á stað til að sýna hvað í þeim býr. Seinni hluta móts þá eru þeir svolítið að draga vagninn ásamt fleiri mönnum," sagði Hemmi.

„Frá og með fyrstu æfingu sá maður kraftinn og áræðnina í Arnari Breka, maður vissi því hvað væri þarna á bakvið. En það er annað þegar kemur í alvöruna, í leiki. Það tók hann smá tíma að fá sjálfstraust. Hann fékk ótrúlegan stuðning frá liðsfélögunum og öllum í klúbbnum til að gera það sem þarf að gera, þessi smá mistök til að keyra menn í gang. Hann sýndi að hann á fullt erindi og rúmlega það í þessa deild. Það var ógeðslega skemmtilegt að sjá."

„Þetta byrjar fyrst og fremst á hans vinnuframlagi, hann var rosaleg vítamínssprauta eins og fleiri í liðinu. Halldór Jón og Alex Freyr höfðu mikil og góð áhrif en þetta er alltaf allt liðið í heild sem þarf að tikka, þetta var rosalega sterk eining."


Kom Arnar Breki þér á óvart með frammistöðu sinni?

„Í mínum augum var þetta tímaspursmál hvenær hann myndi brjóta ísinn með þetta allt saman, að honum liði vel á vellinum og sýndi virkilega hvað í honum býr. Dugnaðurinn, viljinn og liðsmaðurinn var þarna en svo með sjálfstraustinu gat hann sýnt hluti í leikjum sem hann sýndi á hverri æfingu," sagði Hemmi.
Athugasemdir
banner
banner
banner