Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 18. apríl 2019 20:59
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Arsenal vann í Napolí - Chelsea fékk þrjú á sig
Mynd: Getty Images
Arsenal og Chelsea eru komin áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir sigra í leikjum kvöldsins.

Arsenal heimsótti Napoli eftir 2-0 sigur á heimavelli. Napoli kom knettinum tvívegis í netið í leiknum en ekki dæmt mark vegna rangstöðu. Endursýningar sýndu að rangstæðurnar voru báðar afar tæpar, en engin myndbandsdómgæsla í Evrópudeildinni.

Alexandre Lacazette skoraði eina mark leiksins beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Aukaspyrnan var glæsileg og kom Alex Meret í marki Napoli engum vörnum við. Hann sá ekki knöttinn fyrir leikmönnum Arsenal sem stóðu í veggnum og fór fast skot Lacazette í netið.

Napoli komst nokkrum sinnum nálægt því að skora og sömuleiðis fékk Pierre-Emerick Aubameyang dauðafæri en Meret varði meistaralega. Arsenal verðskuldar að fara áfram gegn slöku liði Napoli sem hefur átt slæman síðari hluta tímabils eftir frábæran fyrri hluta.

Chelsea lagði þá Slavia Prag að velli eftir að hafa sigrað fyrri leikinn 0-1 í Tékklandi. Chelsea lék á alls oddi í fyrri hálfleik og komst í 4-1 eftir 27 mínútur. Gestirnir frá Prag skoruðu tvö í síðari hálfleik og lauk leikum með naumum 4-3 sigri og erfiðleikar í varnarleik Chelsea augljósir.

Valencia sló þá Villarreal úr leik með 2-0 sigri á heimavelli eftir 1-3 sigur í fyrri umferðinni og þá komst Eintracht Frankfurt áfram gegn Benfica. Benfica hafði unnið fyrri leikinn 4-2 í Portúgal en Frankfurt fer áfram á útivallarmörkum eftir 2-0 sigur heima.

Arsenal byrjar á heimaleik gegn Valencia í undanúrslitunum. Frankfurt tekur á móti Chelsea þar sem Lundúnarliðin mega ekki spila heimaleiki á sama kvöldi.

Napoli 0 - 1 Arsenal (0-3 samanlagt)
0-1 Alexandre Lacazette ('36 )

Valencia 2 - 0 Villarreal (5-1 samanlagt)
1-0 Lato ('13 )
2-0 Daniel Parejo ('54 )

Eintracht Frankfurt 2 - 0 Benfica (4-4 samanlagt)
1-0 Filip Kostic ('36 )
2-0 Sebastian Rode ('67 )

Chelsea 4 - 3 Slavia Praha (5-3 samanlagt)
1-0 Pedro ('5 )
2-0 Simon Deli ('10 , sjálfsmark)
3-0 Olivier Giroud ('17 )
3-1 Tomas Soucek ('26 )
4-1 Pedro ('27 )
4-2 Petr Sevcik ('51 )
4-3 Petr Sevcik ('54 )
Athugasemdir
banner
banner