lau 18. maí 2019 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Crouch væri til í að sjá Bale aftur hjá Tottenham
Gareth Bale.
Gareth Bale.
Mynd: Getty Images
Bale var frábær fyrir Tottenham áður en hann fór til Real Madrid.
Bale var frábær fyrir Tottenham áður en hann fór til Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Peter Crouch telur að það væri best fyrir Gareth Bale að fara aftur til Tottenham. Hann myndi ekki henta Manchester United.

Bale er líklega á förum frá Real Madrid í sumar eftir sex ára dvöl hjá félaginu. Zinedine Zidane, stjóri Real Madrid, er sagður vera tilbúinn að leyfa Bale að fara.

Sjá einnig:
Umboðsmaður Bale: Zidane vill hann ekki

Bale hefur ekki átt gott tímabil og hefur hann aldrei verið sérlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Real Madrid. Hann hefur þurft að verma varamannabekkinn nokkuð á þessari leiktíð.

Crouch, sem spilaði með Bale hjá Tottenham frá 2009 til 2011, telur að Bale hafi ekki fengið sanngjarna meðferð hjá Real Madrid og hann eigi að drífa sig aftur til Lundúna.

„Við erum með sama umboðsmann og eftir því sem ég best veit þá ætlar hann að reyna að þrauka á Spáni," sagði Crouch við Daily Mail.

„Hann er ánægður að búa á Spáni og vill reyna að koma sér aftur inn í liðið. En ef þeir ætla ekki að nota hann reglulega á næsta tímabili þá væri ég mjög til í að sjá hann koma aftur til Spurs."

„Ég sá fréttir fyrr í þessari viku að hann gæti komið aftur til félagsins á 10 milljón punda lánssamningi. Ég veit hvernig Daniel Levy (stjórnarformaður Tottenham) vinnur og það er ekki samningur sem hann myndi vilja gera. En þetta væri í rauninni skynsamlegt. Hans mikli hraði við hliðina á Harry Kane."

„Hann er alltaf orðaður við Manchester United, en ég sé það félag ekki henta honum þessa stundina."

„Þegar Gareth er í góðu standi þá er hann einn mest spennandi leikmaður heims. Ég hata að sjá hann á bekknum."
Athugasemdir
banner
banner
banner