Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 18. maí 2020 10:30
Ívan Guðjón Baldursson
Bendtner tapaði tæpum milljarði í póker
Mynd: Richard Sagen/Adresseavisen
Danski sóknarmaðurinn Nicklas Bendtner viðurkennir að hann hafi tapað tæpum sjö milljón evrum í póker á sínum yngri árum.

Hann segist hafa verið 19 ára gamall þegar hann byrjaði að leggja mikinn pening undir og í heildina reiknar hann með að hafa hent tæpum 50 milljón dönskum krónum í spilafíknina. Það reiknast sem tæpur milljarður í íslenskum krónum.

„Ég tapaði ótrúlega miklum pening í póker. Það er erfitt að segja hversu há upphæðin er, en ég myndi reikna með að hún hafi verið nálægt 50 milljónum króna. Ég var samt alltaf við stjórn, mér fannst gaman að leggja mikið undir," sagði Bendnter í dönskum raunveruleikaþætti sem fjallar um hann og kærustu hans.

„Þegar ég spilaði í London gátu hlutirnir stundum farið úr böndunum. Einhver kvöld hefðu getað endað mun verr en þau gerðu."

Bendtner segist aldrei hafa glímt við spilafíkn. Hann spilar póker enn í dag en veðjar talsvert lægri upphæðum. Hann segir reynsluna hafa hjálpað sér að læra að fara með pening.

Hinn 32 ára gamli Bendtner er samningslaus sem stendur en hann lék síðast fyrir Kaupmannahöfn. Hann gerði garðinn frægan hjá Arsenal og
hefur meðal annars leikið fyrir Wolfsburg og Juventus.
Athugasemdir
banner
banner